Garnaveiki staðfest í Fáskrúðsfirði

Héraðsdýralæknir lógaði í seinustu viku þremur ám á Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði vegna gruns um garnaveiki, sem síðar var staðfestur við krufningu. Búist er við að bólusetning við garnaveiki hefjist að nýju á svæðinu.

 

ImageSíðast var bólusett við garnaveiki haustið 2005 en þá hafði ekki fundist garnaveiki á svæðinu suður að Hamarsá í áratugi. Kindurnar, sem lógað var, voru fæddar 2006 og 7. Hákon Hansson, héraðsdýralæknir á Breiðdalsvík, segir að á næstu dögum verði teknar blóðprufur til að kanna hvort fleiri kindur hafi smitast. Bændum í Fáskrúðsfirði hefur verið tilkynnt um málið skriflega og fundað verður um framhaldið í næstu viku. Hann reiknar með að bólusetning við garnaveiki hefjist aftur á svæðinu.

Umhverfis- og héraðsnefnd Fljótsdalshéraðs samþykkti á fundi sínum í vikunni bókun þar sem þess er krafist að Matvælastofnun afturkalli strax ákvörðun sína um að leggja niður sauðfjárveikivarnalínuna, sem nefnd hefur verið Reyðarfjarðarlína, meðal annars í ljósi staðfestrar garnaveiki í fyrrum Austfjarðahólfi sem Fáskrúðsfjörður tilheyrði.

Samkvæmt auglýsingu stofnunarinnar frá í október verða Héraðs- og Austfjarðahólf sameinuð í Héraðshólf sem nær frá austurbakka Jökulsár í Fljótsdal/Lagarfljós og suður til Hamarsár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.