Góðar horfur í sölu síldarafurða

Góðar horfur eru á mörkuðum fyrir síldarafurðir nú í upphafi veiða á norsk-íslensku síldinni, að því er Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sagði í samtali við Fiskifréttir í gær. Mikil áhersla er lögð á síld til manneldis. Hjá Síldarvinnslunni eru aðallega frystir flapsar fyrir Austur- Evrópumarkað. Gunnþór sagði að síldin seldist ágætlega þrátt fyrir efnahagsþrengingar margra ríkja í austri enda væri síldin ódýr vara. Verð á frosinni síld hefur verið nokkuð stöðugt í erlendri mynt en hefur þó heldur hækkað. Skilaverð er í kringum 900-1.100 dollarar á tonnið. Gott verð á bræðsluafurðum.

sldarvinnslan_vefur.jpg

Mikil áhersla er lögð á vinnslu á síld til manneldis en eitthvað fer beint í bræðslu fyrir utan afskurð og það sem flokkast frá við vinnslu. Verð á fiskimjöli hefur verið mjög hátt í langan tíma í sögulegu samhengi og sagði Gunnþór að lítil breyting væri á því. Lýsið var einnig í háu verði fyrir nokkrum misserum en verðið féll á síðasta ári. Það hefur heldur hækkað á ný þótt langt sé frá því að það hafi náð fyrri hæðum.

Makríll unninn í landi

 

Makríllinn er nú mættur á miðin og veiðist í bland við norsk-íslensku síldina. Hingað til hefur hann aðallega farið til bræðslu en fyrirtækin eru að þreifa sig áfram með vinnslu á honum til manneldis í landi. „Makríllinn er hausskorinn og slógdreginn fyrir frystingu. Við byrjuðum vinnslu á honum um helgina. Hún gekk ágætlega en hér var um lítið magn að ræða sem við fengum. Við munum halda þessari vinnslu áfram. Hins vegar er makríllinn erfiður í vinnslu og það hjálpar ekki að ólympískar veiðar eru stundaðar á honum. Hver og einn reynir að veiða sem mest. Það er sama hvað menn segja um aflamarkskerfið og aflahlutdeildina að þá hefur það sýnt sig að þetta fyrirkomulag er best til þess fallið til að útgerðir geti skipulagt veiðarnar með það fyrir augum að ná sem mestum verðmætum út úr fiskinum,“ sagði Gunnþór í Fiskifréttum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.