Góðar gjafir við flutning VR

Austurlandsskrifstofa Verslunarmannafélags Reykjavíkur flutti sig á dögunum um set á Egilsstöðum og opnaði nýja og glæsilega skrifstofu að Kaupvangi  3b. Kristín María Björnsdóttir er í forsvari fyrir VR á Austurlandi. Í móttöku sem efnt var til fyrir félagsmenn í tilefni af flutningunum sagði hún vinnuaðstöðu alla verða mun betri í nýja húsnæðinu en verið hefur.

vr_vefur1.jpg

 

Stjórn VR ákvað vegna tímamótanna að styrkja Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Seyðisfirði vegna kaupa á búnaði fyrir alzheimersdeild um eina milljón króna og Hollvinasamtök Fjórðungssjúkrahússins í Neskaupstað um hálfa milljón króna til handa Hreiðrinu, fæðingardeild FSN.  Formaður VR, Kristinn Örn Jóhannesson, afhenti styrkina. Fyrir hönd Hollvinasamtakanna á Seyðisfirði tók Magnús Pálsson, fyrrverandi formaður Verslunarmannafélags Austurlands við styrknum, en sr. Sigurður Rúnar Ragnarsson, formaður Hollvinasamtaka FSN við gjöfinni til Hreiðursins. 

 

Hjá VR á Austurlandi eru nú um tvö og hálft stöðugildi. Skammt er síðan Verslunarmannafélag Austurlands og VR sameinuðust. Kristinn Örn sagði í móttökunni einkar góða samvinnu vera milli höfuðstöðvanna og Austurlands.

Öflugir hollvinir 

Sr. Sigurður Rúnar þakkaði VR gjöfina og sagðist gleðjast mjög yfir að fá að taka á móti slíkri fjárhæð, peningarnir rötuðu sína leið til góðs málefnis. Í máli hans kom fram að Hollvinasamtök FSN færðu fæðingardeildinni tæki fyrir sex milljónir í haust og ekki sé allt búið enn. Hreiðrið verði fullkomnað og öll aðstaða fyrir foreldra verði hin besta. Hollvinasamtökin eru á níunda starfsári og hafa gefið sjúkrahúsinu tæki og búnað fyrir um tíu milljónir árlega þann tíma. ,,Það eru framlög ykkar víða að af Austurlandi og fyrirtækjanna sem starfa flest með miklum blóma. Þetta segir okkur að fólk kann og skilur sinn vitjunartíma varðandi Fjórðungssjúkrahúsið. Það er sjúkrahúsið okkar allra og hreint ekki bara fyrir Norðfirðinga,“ sagði Sigurður Rúnar.

Magnús Pálsson sagði í sínu þakkarávarpi fyrir hönd Hollvinasamtaka Sjúkrahússins á Seyðisfirði (HSSS) að styrkurinn rynni til kaupa á nýju og fullkomnu baðkari með lyftustól, en brýn þörf væri til að endurnýja áratuga gamlan baðbúnað sjúkrahússins. HSSS gerði sitt ítrasta til að hlú að sjúkrahúsinu og framlag VR væri þar mjög mikils virði.

Mynd: Kristinn Örn Jóhannesson, Magnús Pálsson og Kristín Sigurðardóttir./SÁ

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.