Gagnrýni: Coney Island Babies - Morning To Kill

coney_island_babies_morning_to_kill_cover_web.jpg
Norðfirska hljómsveitin Coney Island Babies sendi nýverið frá sér hljómplötuna Morning To Kill. Átta laga skífa sveitarinnar er enn eitt rósið í hnappagat norðfirskrar tónlistar.

Sveitina skipa þeir Geir Sigurpáll Hlöðversson, Guðmundur Höskuldsson, Hafsteinn Már Þórðarson og Jón Knútur Ásmundsson. Þeir hafa spilað saman um í átta ár en þetta er fyrsta plata sveitarinnar. Sveitin spilar nokkuð hefðbundið melódískt rokk, byggt upp á trommum, gítar, bassa og að sjálfsögðu söng. Meðlimirnir lýsa sér sem fjórum „heiðarlegum mönnum sem sinna hversdagslegum skyldum á virkum dögum“ en rokki hins vegar á þriðjudögum.

Platan byrjar á hressasta laginu, Polly, sem er kraftmikið rokklag. Lögin sem á eftir fylgja eru rólegri, blúsaðri. Annað lagið, Next To You, endar á góðu grúvi, þriðja lagið I Never Loved You er með grípandi viðlag sem festist á heilann og og titillagið, sem er númer fimm á plötunni, ber sterkan en góðan blúskeim.

Gott drama er í risinu á Perfect, sjöunda lagi plötunnar en henni lýkur á Ships, lagi sem einkennist af björtu kassagítarspili. Stemmingin og staðsetning á plötunni minnir því á R.E.M. lagið Falls To Climb af plötunni Up.

Hápunktur Morning To Kill er samt fjórða lagið Feeling Better þar sem Geir Sigurpáll syngur dúett með Rannveigu Júlíu Sigurpálsdóttur. Í viðlaginu minnir samsöngur þeirra á Nick Cave og Kylie Minogue í Where There Wild Roses Grow og lagið hentar vel lágstemmdri rödd Geirs.

Textarnir eru það sem helst draga plötuna niður. Varla hyggur sveitin á útrás en af hverju syngur hún þá á ensku? Íslensk sveit að herja á íslenskan markað á að mínu mati að syngja á íslensku. Í staðinn verða textarnir klisjukenndir og myndmálið hálf hallærislegt, líkt og hinum ástlausa manni sem er eins og fótboltalið án framherja (þarna er boðið upp á rímið striker á móti biker).

Heilt yfir hljómar platan vel en hún er alfarið tekin upp eystra og að miklu leyti unnin hér. Lögin eru almennt löng, aðeins eitt undir fimm mínútum sem verður þeim fjötur um fót í útvarpsspilun. Sérstaklega verður að hrósa útliti plötunnar sem hannað er af Coney Island Babies hjartans vini, honum Páli Ólafssyni. Merk heimild um austfirska og norðfirska tónlistarsögu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.