Frumkvöðlahraðall fyrir konur að fara af stað
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. feb 2023 11:08 • Uppfært 07. feb 2023 11:08
Háskóli Íslands fer á næstunni með frumkvöðlahraðal sérstaklega fyrir konum. Hraðallinn er opinn fyrir þátttakendur af öllu landinu. Fyrrum þátttakandi af Austurlandi segir hraðalinn hafa veitt henni verulega hvatningu.
Hraðallinn heitir HÍ-AWE, sem stendur fyrir Academy for Woman Entrepreneurs. Hann er haldinn í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi, Félag kvenna í atvinnulífinu og Samtök kvenna af erlendum uppruna.
Hraðallinn er opinn konum á öllum aldri. Bæði einstaklingar og lið geta tekið þátt. Æskilegt er að umsækjendur hafi viðskiptahugmynd eða nýlega stofnað fyrirtæki í farteskinu því markmiðið er að styðja konur í að þróa áfram sínar hugmyndir, bjóða upp á fræðslu og efla tengslanetið.
Staðlotur eru bæði í Reykjavík og Bifröst þótt námið fari að mestu fram í gegnum fjarkennslu. Ferðastyrkir eru veittir til þátttakenda af landsbyggðinni.
Þetta er í þriðja sinn sem hraðallinn er haldinn en þrjár hugmyndir frá Austurlandi komust þar inn í fyrra. Eina þeirra átti Helga Eyjólfsdóttir, frá Melum í Fljótsdal. Hún segir þátttökuna hafa verið verulega gefandi.
„Þetta var frábær reynsla því ég átti mér stóra drauma en var með lítið hjarta. Ég kynntist fullt af konum með sömu pælingar, að skapa það sem þær höfðu brjálæðislega ástríðu fyrir.
Ég er almennt frekar jarðbundin en orkan sem ég fann fyrir á öllum fundum og þegar við hittumst gaf mér ótrúlega mikið búst og pepp. Ég kynntist alls konar konum, stækkaði tengslanetið, eignaðist vinkonur, jók sjálfstraustið og fleira.
Þótt ég sé ekki nú að vinna áfram með hugmyndina sem ég fór inn í hraðalinn þá er hún ekki gleymd og verður klárlega tekin upp seinna. Ég er hins vegar með annað verkefni í gangi og hraðallinn nýttist vel til að undirbúa mig í því,“ segir Helga.
Umsóknarfrestur í hraðalinn er til 9. febrúar.
Þátttakendur hraðalsins við útskrift í fyrra. Mynd: HÍ/Kristinn Ingvarsson