Framinn allur Eistnaflugi að þakka

Gítarleikari hljómsveitarinnar Auðnar segir rótina að frama sveitarinnar á erlendri grundu vera í hátíðinni Eistnaflugi. Hljóðmaður segir hátíðina standast samanburð við hátíðir erlendis í utanumhaldi.


„Þessi hátíð gerði allt fyrir okkur í Auðn. Við spiluðum hér og kynntumst erlendum blaðamönnum og bókurum sem varð til þess að við komumst á plötusamning erlendis og ferðumst nú um heiminn og spilum. Þetta er allt Eistnaflugi að þakka.“

Þetta segir Aðalsteinn Magnússon, gítarleikari Auðnar þar sem við sitjum í partýtjaldinu á Eistnaflugi um kvöldmatarleytið á föstudegi og ræðum hátíðina. Með okkur situr Silli Geirdal, einn af tæknimönnum hátíðarinnar og bassaleikari Dimmu.

Árið sem Silli eyðilagði Eistnaflug

Báðir eru reyndir Eistnaflugsgestir. Aðalsteinn hefur komið á hverju ári frá árinu 2007 og Silli aðeins misst af hátíðinni tvisvar síðan hann kom fyrst árið 2009.

„Það er stundum sagt ég hafi eyðilagt hátíðina. Ég kom til að vinna á hátíðinni þá og sá efniviðinn en það var of mikið kaos. Eftir hátíðina sendi ég skýrslu, tvær fullar A4 skrifaðar síður af hlutum til að laga.

Skipuleggjendurnir voru svo ánægðir með hvernig til hefði tekist þar til þau fengu póstinn frá mér. Stebbi Magg (stofnandi hátíðarinnar) kallar þetta árið þar sem Silli eyðilagði Eistnaflug,“ segir hann.

Silli eyðilagði ekki Eistnaflug sem haldin hefur verið árlega í Neskaupstað frá árinu 2005. Ef eitthvað var þá efldi hann hana. Hún var fyrst haldin í Egilsbúð en það hús reyndist of lítið og nú er íþróttahúsið í þriðja sinn aðalvettvangur hennar.

Bæði Aðalsteini og Silla verður tíðrætt um hversu fagmannlega sé haldið utan um hátíðina. Hljóð og ljós sé eins og best gerist á erlendum þungarokkshátíðum. Hún hefur lengi verið nefnd sem árshátíð íslenskra þungarokkara, eina helgi á ári safnist þeir saman í Neskaupstað sem þýðir að á fjórum dögum má sjá allt það helsta sem er að gerast í íslensku þungarokki.

Bilað góður stökkpallur fyrir íslenskar sveitir

Þar eru bæði stærstu nöfnin sem spila reglulega erlendis, eins og Auðn, Sólstafir og Skálmöld og minni sveitir á uppleið, líkt og Une Misere sem yfirgnæfir samtal okkar með sínum fyrstu tónum. Til viðbótar eru stór erlend nöfn eins og The Dillinger Escape Plan og Cavalera-bræður úr Sepultura sem var meðal brautryðjenda svartmetalsins.

„Þetta er bilað góður stökkpallur fyrir íslenskar hljómsveitir og góður vettvangur fyrir gesti tilað koma og sjá hljómsveitir meðan þær eru enn á uppleið. Að auki er hingað bókaður rjóminn af erlendi þungarokki svo þú þarft ekki út til að sjá þau,“ segir Aðalsteinn.

„Hér hittir maður fólk sem maður nær ekki að hitta nógu oft og sér bönd sem maður á annars ekki séns á að sjá ásamt nýjum böndum.

Mér finnst áberandi þegar maður sér rjómann af erlenda þungarokkinu ásamt því íslenska hvað íslensku böndin eru góð. Mér finnst þau eiginlega sigurvegararnir,“ segir Silli.

Alltaf tími fyrir Eistnaflug

Hátíðin er alla veganna nógu öflug til að Aðalsteinn og félagar hans í Auðn, sem kom fram á Hróarskeldu um síðustu helgi og verða þá næstu í Litháen, taka aðra helgina í júlí frá.

„Það er alltaf tími fyrir Eistnaflug. Þetta er besta hátíð á Íslandi,“ segir hann.

„Hún er vissulega ekki sú sama og hún var fyrst. Ég man eftir að hér var standandi partý allar sólarhringinn, þetta er meira alvöru í dag. Við Silli förum báðir erlendis á hátíðir og vitum að ljós, hljóð og stemmingin er eins og best verður á kosið.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar