Flytja Passíusálmana í sex austfirskum kirkjum

Tónlistarhópurinn Austuróp flytur í vikunni Passíusálma Hallgríms Péturssonar í heild sinni í sex kirkjum á Austurlandi. Listrænn stjórnandi hópsins segir þetta einstaka leið til að kafa ofan í þjóðararfinn.

„Ég hef gengið með þessa hugmynd í maganum eftir að ég flutti austur því ég tók þátt í að flytja Passíusálmana í Hafnarfjarðarkirkju.

Það er kannski dálítil sérviska og ýkt að ætla að flytja alla sálmana en það er líka einstök leið til að kafa í textann og þennan þjóðararf. Það er gaman að gera þetta einu sinni,“ segir Hlín Pétursdóttir Behrens, listrænn stjórnandi hópsins.

Tónlistarfólk víða af Austurlandi


Austuróp er tónlistarhópur sem er samansettur af söngvurum og hljóðfæraleikurum víða af Austurlandi. Að þessu sinni verða með hópnum flytjendur af Fljótsdalshéraði, Djúpavogi, Borgarfirði, Seyðisfirði og Fáskrúðsfirði.

„Austuróp leitast við að skapa vettvang fyrir menningarviðburði þar sem þátttakendur eru bæði áhugafólk um tónlist, atvinnumenn og tónlistarnemendur. Við erum með breytilega sönghópa á hverjum stað, frá 6-12 manns. Á hverjum stað kemur fram annað hvort einsöngvari eða einleikari, sem í sumum tilfellum tengist staðnum.

Ég var lengi hikandi um hvort þetta væri mögulegt því það er svo mikið flakk á fólki um páskana en síðan fundum við góða leið. Niðurstaðan var að það væri gaman að vera bæði í kirkjum í þéttbýliskjörnum en líka fara í minni kirkjur í sveitunum þar sem kannski er ekki svo mikið um að vera en gaman að syngja og spila sálma.“

Um er að ræða heildarflutning Passíusálmanna, þeir eru ýmist sungnir eða lesnir. „Þetta eru gömul lög sem voru sungin á heimilum eins og húslestur á föstu. Það voru upptökur gerðar eftir fólki sem flest fæddist á 19. öld, lögin síðan skrifuð niður af Smára Ólafssyni og gefin út á 400 ára ártíð Hallgríms Péturssonar,“ segir Hlín.

Ein kirkja á kvöldi


Frumflutningur var í Valþjófsstaðakirkju á sunnudag og í gær var hópurinn í Sleðbrjótskirkju. Í kvöld verða sálmarnir fluttir í Seyðisfjarðarkirkju, svo í Vallaneskirkju, í Bakkagerðiskirkju á skírdag og endað í Egilsstaðakirkju á föstudagskvöld.

„Það var hátíðlegt og vel mætt á Valþjófsstað en afar heimilislegt í Sleðbrjótskirkju. Ég hafði aldrei komið í þá kirkju áður en hún er með þeim fallegri sem ég hef komið í og þar myndaðist falleg stemming. Ég er afar ánægð með að búa á svæði þar sem grundvöllur er fyrir svona auðugu menningarlífi og ég er þakklát fyrir þann stuðnings sem við höfum fengið, meðal annars frá Uppbyggingarsjóði Austurlands, Tónlistarsjóði, Múlaþingi og Landsvirkjun.“

Flytjendur eru: Sönghópur Austuróps, einsöngvararnir Angelika Liebermeister, Tinna Jóhanna Magnusson, Þórdís Sævarsdóttir, og Guðsteinn Fannar Jóhannsson, hljóðfæraleikararnir Kamilla Kerekes, Sóley Þrastardóttir, Sándor Kerekes, Torvald Gjerde og Wes Stephens.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.