Flugslysaæfing á Egilsstaðaflugvelli

Flugslysaæfing verður haldin á flugvellinum á Egilsstöðum á morgun laugardaginn 12. september. Æfingin verður sú þriðja á þessu ári. Á fyrstu sex mánuðum þessa árs voru farþegar á Egilsstaðaflugvelli 47.934, áætlunarflug á flugvöllinn er 3 - 4 sinnum á dag milli Reykjavíkur og Egilsstaða.

flugslysafing2008_048_vefur.jpg

Í tilkynningu frá Flugstoðum segir að flugslysaæfingar Flugstoða séu uppistaða hópslysaæfinga á Íslandi því hvort sem flugslys, rútuslys, stórt bílslys, snjóflóð, jarðskjálfti eða skriða á byggð verður á Íslandi,  má segja að þau viðbrögð sem virkjuð eru við flugslysaæfingar séu þau sömu.  Markmiðið með flugslysaæfingum er að leiða saman þá viðbragðsaðila sem hafa hlutverki að gegna við hópslys og einnig er á sama tíma sett upp fræðsla á hópslysaviðbúnaði og virkni flugslysaáætlunar sannreynd á viðkomandi flugvelli.

Fjöldi þátttakenda í æfingunni á Egilsstaðaflugvelli á morgun eru um 200 manns og liggur mikill undirbúningur að baki, áhersla er lögð á að undirbúningur og framkvæmd hverrar æfingar fyrir sig sé fyrst og fremst á könnu heimamanna því tilgangurinn er að þjálfa fólk í að takast á við þær aðstæður sem upp koma við raunverulegt flugslys eða hópslys. Og til að sem mest komi út úr æfingunni eru aðstæður gerðar eins raunverulegar og hægt er.  

Á flugslysaæfingum er ekki bara verið að samhæfa ofnagreind viðbrögð því einnig eru fjarskipta- og boðunarmál æfð og prófuð, slíkar prófanir eru ekki síður mikilvægar því oftast liggur mikið við ef hópslys verður.

Gangur hverrar æfingar fyrir sig er þannig að kveikt er í “flaki” og í framhaldinu hringir viðkomandi flugturn í Neyðarlínuna sem boðar viðbragðsaðila. Fyrsta skref er að slökkva í flakinu og er það gert miðað við að viðbragðsaðilar viti ekkert um “handrit” æfingarinnar þ.e. hversu margir “farþegar” eru “slasaðir” og hversu mikið.   Hver viðbragðsaðili kemur svo inn í æfinguna, hver af öðrum, og vinnur sitt verk í samvinnu við hina.   Búið er að þolendum og þeir flokkaðir í ákveðna flokka eftir áverkum og þeim komið undir réttar hendur á sem fljótlegasta og öruggastan hátt.

Flugstoðir ohf. hafa yfirumsjón með flugslysaæfingum á Íslandi, samstarfsaðilar eru Ríkislögreglustjóri, Rauði Krossinn, Landsspítali háskólasjúkrahús, Slysavarnarfélagið Landsbjörg, Slökkvilið Akureyrar, Rannsóknarnefnd flugslysa, Landhelgisgæslan, Biskupsstofa, Neyðarlínan og fleiri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.