Fleiri náms- og starfsráðgjafar virkjaðir í þágu atvinnuleitenda

Í gær var undirritaður samningur milli Vinnumálastofnunar, KVASIS, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva  og Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins  um náms- og starfsráðgjöf fyrir atvinnuleitendur.  Á vegum fræðslu- og símenntunarmiðstöðva starfa náms- og starfsráðgjafar, sem munu með þessum samningi  taka þátt í að ná til atvinnuleitenda  sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins og hvetja þá til virkni.

fundur_vmst_kvasi_og_fa__grand_htel_016.jpg

Atvinnuleysi er nú yfir 7% á landsmælikvarða, en mismunandi eftir svæðum. Mest er atvinnuleysið á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum. Þörfin fyrir náms- og starfsráðgjöf hefur aukist mjög mikið án þess að fjárveitingar  hafi aukist í sama mæli  til að mæta ráðgjafaþörfinni á vegum Vinnumálastofnunar.

Fræðslumiðstöð atvinnulífsins hefur á grundvelli samnings ASÍ og SA við menntamálaráðuneytið greitt fyrir náms- og starfsráðgjöf hjá símenntunarmiðstöðvum. Umfang þess starfs eru um 7 föst stöðugildi náms- og starfsráðgjafa á 10 fræðslu- og símenntunarmiðstöðvum um allt land . Auk þess hefur verið svigrúm til að greiða fyrir meiri vinnu námsráðgjafa eftir þörfum á hverju svæði fyrir sig.  Það má því reikna með að sú aukning sem verður í náms- og starfsráðgjöf með þessum samningi sé  á bilinu 7-9 þúsund einstaklingsviðtöl á ársgrundvelli. Það er góð viðbót við þá ráðgjafaþjónustu sem Vinnumálastofnun veitir en á þjónustuskrifstofum hennar starfa um 20 ráðgjafar sem geta áorkað um 20 – 25 þúsund einstaklingsviðtölum á ári.  

Markmiðið með samningnum er fyrst og fremst að ná til þess stóra hóps sem er án framhaldsskólamenntunar og hefur verið lengst á atvinnuleysisskrá. Þeir sem hafa eingöngu grunnskólapróf, sem síðustu prófgráðu eru um 30% fólks á vinnumarkaði, en yfir 50% þeirra sem eru á atvinnuleysisskrá. Sami hópur er einnig stærstur af þeim sem eru langtímaatvinnulausir .

Það er þekkt staðreynd að langtímaatvinnuleysi getur haft varanleg áhrif á andlegt ástand og atvinnuhæfni fólks . Það er því sérstaklega  mikilvægt að hægt sé að grípa inn í þá þróun fyrr en síðar.

Atvinnuleitendur geta á grundvelli þessa samnings átt von á að vera kallaðir til skylduviðtals   á vegum fræðslu- og símenntunarmiðstöðvanna, en ekki eingöngu hjá Vinnumálastofnun  eins og áður hefur verið.

 

 

-

Mynd:  Inga Dóra Halldórsdóttir, formaður KVASIS, samtaka fræðslu- og símenntunarmiðstöðva, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar og Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins skrifa undir samninginn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.