Fimmtán bílar á Subarudegi

subarudagur_web.jpgTveir vaskir piltar í Verkmenntaskóla Austurlands stóðu fyrir Subarudegi í Neskaupstað í seinustu viku. Fimmtán nemendur og kennarar mættu á bílum sínum. Sölustjóri bifreiðanna hér á landi segir daginn sýna stöðu Subaru sem landsbyggðarbifreiðar.

 

„Við fengum hugmyndina að deginum þegar við tókum eftir því hversu margir voru á Subarubifreið hér á staðnum og í skólanum. Við hengdum upp auglýsingar og bjuggum til fésbókarviðburð og tókum strax eftir að mikill áhugi var fyrir hendi af samnemendum okkar og reyndar kennurunum líka,“ segir Guðbjartur F. Gunnarsson sem stóð fyrir deginum ásamt félaga sínum, Sindra Má Smárasyni.

„Okkur fannst takast vel til og mættu fleiri en við bjuggumst við eða samtals 15 bifreiðar og fjöldinn allur af samnemendum okkar til að fylgjast með látunum.“

Rúnar H. Bridde, sölustjóri Subaru hjá Ingvari Helgasyni, var ánægður með uppátækið. „Þetta er frábært og aðdáunarvert framtak og gaman að sjá hvað Subaru hefur gríðarlega tryggan aðdáendahóp. Hér er á ferðinni merkilegur viðburður sem undirstrikar hvað Subaru hefur í gegnum árin lagt til samfélagsins með sínum áreiðanleika og öryggi.

Á landsbyggðinni skiptir sköpum að komast frá a-ö og hefur Subaru fengið þann heiður að leika það hlutverk með miklum sóma.“

Mynd: Hafrún Eiríksdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.