Fimm Austfirðingar í framboði til Stúdentaráðs

Fimm Austfirðingar eru í framboði til Stúdentaráðs Háskóla Íslands í ár, allir á lista Röskvu, en kosið verður næstu tvo daga. Forseti framboðsins segir framboðið ganga hnarreist til kosninganna eftir að hafa verið í meirihluta síðustu tvö ár.

„Kosningabaráttan hefur gengið nokkuð vel en svo er aldrei að vita hvað gerist,“ segir Sigurður Vopni Vatnsdal, forseti Röskvu, en hann kemur frá Vopnafirði.

Sigurður Vopni er einn Austfirðinganna fimm sem eru í framboði. Hann er á öðru ári í grunnskólakennaranámi og skipar fyrsta sætið á menntavísindasviði. „Röskva hefur ekki áður unnið menntavísindasviðið en við stefnum á það.“

Aðspurður um hvaða mál hafi borið hæst í kosningabaráttunni segir hann að frambjóðendur Röskvu hafi lagt áherslu árangur sem náðst í gegnum Stúdentaráð þar sem framboðið hefur verið með meirihluta síðustu tvö ár með 18 af 27 fulltrúum.

Sigurður Vopni nefnir mál eins og geðheilbrigðismál og aukna framfærslu námslána sem dæmi um árangur Röskvu. Þá hafi verið tekið til í rekstri skrifstofu stúdentaráðs. „Starfsárið hefur verið mjög gott,“ segir Sigurður Vopni, sem verið hefur forseti Röskvu í rúmt ár.

Af stefnumálum ársins má einnig nefna baráttu fyrir bætti aðgengi hjólreiðafólks á háskólasvæðinu og aukinni þjónustu þar þannig að stúdentar þurfi ekki að sækja langt eftir nauðsynjavöru. Þar fer mikið fyrir umræðu um að fá lágvöruverðsverslun á svæðið.

Austfirðingar hafa verið öflugir í Röskvu síðustu ár en á undan Sigurði Vopna var Guðjón Björn Guðmundsson frá Neskaupstað formaður. Í kynningu frá Röskvu er minnst á baráttu fyrir hagsmunum nema af landsbyggðinni, en í sumar fékkst í fyrsta sinn leyfi til að framleigja stúdentaíbúðir yfir sumartímann.

Kosið er á innri vef Háskólans á morgun miðvikudag og fimmtudag. Kosnignarétt hafa allir þeir sem skráðir eru í nám við HÍ.

Austfirðingar á framboðslista Röskvu 2019:

Sigurður Vopni Vatnsdal, Vopnafirði, grunnskólakennarafræði - 1. sæti Menntavísindasviði
Freydís Þóra Þorsteinsdóttir, Stöðvarfirði, Sálfræði – 2. sæti Heilbrigðisvísindasviði
Þórunn Egilsdóttir, Neskaupstað, lyfjafræði – 4.sæti Heilbrigðisvísindasviði
Ragnhildur Þrastardóttir, Egilsstöðum, Bókmenntafræði og ritlist – 1. sæti á Hugvísindasviði
Rebekka Karlsdóttir, Eiðaþinghá (Líffræði) – varamaður á Verkfræði- og náttúruvísindasviði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.