Fermdist í kjól af ömmu sinni

„Ég skammaðist mín ekki fyrir þetta í eina sekúndu á sínum tíma, mér fannst þetta alveg geggjað,“ segir Fáskrúðsfirðingurinn Sigdís Telma Gunnarsdóttir, sem fermdist í kjól sem amma hennar keypti í Verðlistanum árið 1967.


Sigdís Telma sagði þessa skemmtilegu sögu í fermingarblaði Austurgluggans sem kom út í síðustu viku. Sigdís Telma fermdist á Fáskrúðsfirði árið 2007.

„Ég hef alltaf haft gaman af því að skoða gömul föt en amma hefur haldið upp á fötin sín, sérstaklega þau sem hún hefur saumað sjálf. Ég var einn daginn, þarna fyrir fermingu, að róta í kössunum hjá henni eins og ég var vön að gera, þegar ég fann kjólinn. Um leið og ég mátaði hann vissi ég það; ég ætlaði að fermast í þessum kjól. Ég get hins vegar ekki sagt í dag að mér finnist hann mjög fallegur og ég skil ekki alveg af hverju ég vildi endilega fermast í honum,“ segir Sigdís Telma hlæjandi og segir kjólinn vera karrýgulan, látlausan, ermalausan og beinan í sniðinu.

Sigdís Telma segir að ekkert geti útskýrt ákvörðun sína. „Ég hef alltaf verið mjög tengd ömmu og alltaf litið svakalega mikið upp til hennar og fannst gaman að vera í kjól af henni. Þetta á sér enga aðra orsök en það var alls ekki mikið um „vintage“ fataáhuga í mínum vinahóp á þessum tíma eða neitt slíkt, eða ég að ganga í slíkum fötum en hafði alltaf mikinn áhuga á að skoða hennar föt, sérstaklega af því hún gerði mikið af þeim sjálf.“

„Mér fannst þetta alveg geggjað“
Sigdís Telma segir fólkið í kringum hana ekki hafa látið sér bregða við val hennar. „Nei, í rauninni kippti enginn sér upp við þetta, ég kom bara með hann fram og sagðist ætla að fermast í þessum kjól, það eina sem ég var spurð að var hvort ég væri viss, sem ég var. Ég man allavega ekki eftir því að nokkur hafi haft orð á þessu. Í dag, þegar ég skoða myndirnar, væri ég alveg til í að hafa bara fermst í kjól eins og hinar stelpurnar en annars er þetta bara mjög skemmtileg saga.“
Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar