Engin ein leið rétt í lífinu
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 10. feb 2023 09:49 • Uppfært 10. feb 2023 09:53
Tíu ár eru í liðin síðan fyrsti íslenski lýðháskólinn, LungA-skólinn á Seyðisfirði, var stofnaður. Þá voru engar reglur um slíka skóla hérlendis, sem síðan hafa verið mótaðar með virkri þátttöku LungA-fólks. Ný námsbraut bætist við skólann um helgina.
„Skólinn var stofnaður árið 2013, þótt fyrsta önnin væri ekki kennd fyrr en í mars 2014. Ástæðan fyrir því að við stofnuðum skólann var að okkur fannst vanta ákveðið andrými í íslensk skólakerfi. Stað þar sem unga fólkið gæti komið og eytt smá tíma í að líta inn á við, til að komast nær því að finna sína hillu í lífinu.
Þar erum við ekki að tala um ákveðinn starfsframa, frekar hvað veitir þeim gleði, ró og fullnægju,“ segir Björt Sigfinnsdóttir, einn stjórnenda skólans, í viðtali við Austurglugga vikunnar.
Hún fór af stað með skólann ásamt þeim Lasse Høgenhof og Jonatan Spejlborg Juelsbo, en þau kynntust í Kaospilot námi í Danmörku. Þau starfa öll enn við skólann. Kaospilot-námið, sem kallast óreiðuriddari á íslensku, er leiðtoga og frumkvöðlanám. Þríeykið nýtti lokaverkefni sín til að gera verkefnalýsingu, námsskrá og viðskiptaáætlun fyrir skólann.
„Við vissum ekkert hvernig væri að reka skóla, en þegar við vorum búin með lokaverkefnin skáluðum við, horfðumst í augu og sögðum: „Við gerum þetta“. Við fengum strax mikla hjálp frá vinum og vandamönnum, samnemendum, Listaháskólanum, Seyðisfjarðarkaupstað og menntamálaráðuneytinu, því við höfðum myndað góð tengsl í lokaverkefninu. Frá upphafi fengum við flotta stjórn sem studdi vel við okkur, sem og frábæra nemendur. Þeir voru 20 á fyrsta námskeiði og við höfum, enn þann dag í dag, varla auglýst skólann.“
Listin og landið
Skólinn hefur frá upphafi verið með listabraut, en í ár bætist við ný braut, Land. Fjögurra vikna prufukennslu hennar lauk í síðustu viku, en fjórtán nemendur voru skráðir í þetta fyrsta námskeið. Stefnt er að því að bjóða upp á fyrstu fullu 12 vikna önnina í haust.
„Við höfum margþætt markmið með brautinni, en kannski aðallega að skila því til baka til jarðarinnar sem við höfum tekið af henni. Við viljum komast nær náttúrunni, læra að lesa í og ferðast um landslag, rækta og græða upp sár, búa til mat, veiða, skrifa sögur, kynnast stjörnunum. Við fengum meðal annars til okkar jurtalækni, fornleifafræðing, rithöfunda og útivistarfólk,“ segir Signý Jónsdóttir, sem er kennslustjóri brautarinnar ásamt Hilmari Guðjóns og Þrándi Gíslasyni Roth.
Milli listabrautarinnar og nýju landsbrautarinnar eru ýmsir snertifletir. „Mér finnst ákveðin lenska, á meðal þeirra listamanna sem búnir eru með nám og farnir að starfa við listina, að horfa meira til landsins og nærumhverfisins. Listin hefur alltaf verið pólitískur skriðþungi í málefnum heimsins og núna er það náttúran. Fyrst þegar við fórum af stað með þróunarvinnuna og ræddum hvernig við fengjum fólk til að tengja við jörðina, fannst mér hugmyndin vera nokkuð langt frá listinni, en nálgaðist eftir því sem við unnum meira með hana,“ segir Hilmar.
Björt segir að umhverfi Seyðisfjarðar, á ýmsan hátt, hafi veitt þeim innblástur við þróun brautarinnar. „Við höfum þessa mikilfenglegu náttúru sem að undanförnu hefur heldur betur látið vita af sér. Þetta eru málefni sem eru mikið uppi á pallborðinu þessa dagana vegna mikilla breytinga á veðurfari. Við fengum síðan gott fólk, sem er bæði skapandi í nálgun sinni á lífið en líka með mikla útivistar- og landþrá, með okkur í að þróa brautina.“
Líkt og með listabrautina eru engar sérstakar kröfur um þekkingu eða reynslu við innritun. „Við mætum eins og við erum og stígum síðan skrefin saman út frá því. Sköpunargleðina má alltaf virkja í skapandi hugsun, sama við hvað er unnið,“ bætir hún við.
Snýst um spurningarnar
Námið í LungA-skólanum er nokkuð ólíkt því sem gerist í hefðbundnari skólum. „Mér finnst spurningin: „Hvað kennum við“ vera allsráðandi í hefðbundna skólakerfinu. Lýðháskólakerfið snýst ekki um hvað við kennum heldur hvaða spurninga við spyrjum. Á nýju brautinni eru spurningarnar okkar meðal annars: hver er tengingin við landið og umhverfið? Hver er þörfin á öllu sem við eigum eða því sem við pöntum alls staðar að úr heiminum? Er hægt að gera hlutina öðruvísi? Brautin verður til út frá lönguninni til að rannsaka þessar og viðlíka spurningar,“ segir Hilmar.
„Það hljómar ekki rétt að segja að við séum að kenna, frekar að rannsaka saman. Við kynnum nemendur okkar fyrir ýmissi aðferðafræði, lífsspeki og kenningum á það efni sem við erum að vinna með í hvert skipti og skoðum það síðan saman.
Við leggjum mikið upp úr því að koma þeim boðum til skila, að það sé engin ein rétt leið í lífinu, hvort sem það er fjallganga eða listsköpun. Að við getum gert hlutina á ólíkan hátt, frekar en að það sé einhver ein rétt leið. Með því reynum við að koma hinni eilífu skömm, sem við öll burðumst með, fyrir kattarnef,“ segir Björt.
Hilmar, Signý og Björt.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.