Ekkert Eistnaflug í sumar

Ákveðið hefur verið að fresta rokkhátíðinni Eistnaflugi um ár vegna samkomubanns sem sett var til að hindra útbreiðslu Covid-19 faraldursins.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem tónleikahaldarar sendu frá sér fyrir stundu. Halda átti hátíðina í Neskaupstað 9. – 12. júlí.

Þar segir að á sérstökum tímum þurfi að taka erfiðar ákvarðanir og þessi sé ein þeirra. Í ljósi aðstæðna telji skipuleggjendur hátíðarinnar ekki skynsamlegt, né öruggt, að stefna saman þeim mikla fjölda gesta, listamanna og starfsfólks sem heimsæki hátíðina ár hvert.

Búið var að staðfesta nokkrar hljómsveitir á hátíðina, þar af þrjár erlendar auk íslenskra sveita á borð við Dimmu, Forgarð helvítis og Alchemiu. Þeim sem þegar hafa keypt miða býðst að færa hann yfir á næsta ár eða fá hann endurgreiddan.

Í tilkynningunni segjast skipuleggjendur þó ekki vera að baki dottnir og þá langi til að gera eitthvað skemmtilegt í sumar til að gleðja tónleikaþyrsta þungarokkara. Ýmsar hugmyndir hafi verið ræddar en öllum tillögum sé tekið fagnandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.