Eistnaflug: Allt það besta í mannlífinu eða ógeðishátíð?

eistanflug_12_steinunn.jpg

Skipuleggjendur, tónlistarmenn, Norðfirðingar og gestir rokkhátíðarinnar Eistnaflugs bera sig vel eftir hátíðina í Neskaupstað um síðustu helgi. Fréttir af fíkniefnamálum á hátíðinni hafa samt vakið upp umræðu um íslenskar útihátíðir.

 

„Þrjátíu fíkniefnabrot, ein líkamsrárás og ellefu umferðalagabrot, minnir lítið á hátíð í mínu huga. En samt þykir hátíðin hafa farið vel fram?“ skrifar Heiða Þórðar í pistli á Spegill.is  og heldur áfram: 

„Í skjóli nætur þrífst ógeðið best eða eins og pattaraleg og feit svínapylsa. Ógeðið felur sig í margmenni.“ Skrifunum lýkur hún á varnaðarorðum til foreldra um að gæta vel að börnum sínum um verslunarmanna og hleypa þeim ekki eftirlitslausum á útihátíðir.

Kurteisustu hátíðargestirnir?

Í dagbók lögreglunnar á Eskfirði kemur fram að rokkhátíðin hafi að „flestu leyti farið ágætlega fram.“ Rúmlega tuttugu fíkniefnamál komu upp og einn var fluttur á sjúkrahús vegna meiðsla sem hann hlaut við ferðalag yfir skurð í nágrenni tjaldsvæðisins. Áætlað er að um 1.300 gestir hafi sótt hátíðina.

Í Facebook-færslu um helgina lýsti Steinar Gunnarsson, varðstjóri í Neskaupstað þeirri skoðun sinni að gestir Eistnaflugs væru öðrum útihátíðargestum kurteisari í samskiptum sínum við lögregluna. Fleiri Norðfirðingar sem Agl.is hefur rætt við hafa tekið í sama streng. Líkt og Steinar segi hafi ungmennin verið kurteis og ekkert ónæði verið af þeim.

Þannig hefur verið sagt frá fullu peningaveski sem bassaleikari Cephalic Carnage týndi þegar hann henti sér út í áhorfendaskarann. Því var snarlega skilað í miðaafgreiðsluna líkt og fleiri verðmætum sem gestir týndu.

Norðfirðingar yndislega umburðarlyndir fyrir hátíðinni 
 
Hátíðargestirnir eru gestgjöfum sínum þakklátir. „Norðfirðingar eru yndislega umburðalyndir fyrir þessari hátíð. Nákvæmlega enginn er með leiðindi, allir taka vel á móti manni og sumir eru jafnvel í því að bjóða manni far upp á tjaldstæði,“ segir Steinunn Friðriksdóttir sem sótti hátíðina um helgina.
 
Hún segir þetta jákvæða viðmót alls ekki sjálfgefið þar sem „flestir hátíðargesta líti út fyrir að fíla tónlistina sem þeir fíla - og tónlistin sjálf er spiluð svo hátt að það glymur um bæinn. Þæri ekki svo fráleitt að fólk hataðist eitthvað út í þessa hátíð, en það eru allir fáránlega næs.“
 
Steinunn ítrekar að mikil fjölskyldustemming ríki á hátíðinni. „Það eru allir vinir á eistnaflugi. Það er enginn með leiðindi, allir eru eins og ein stór fjölskylda. Það mætti t.a.m. ætla að pytturinn væri auðveldasta leið í heimi til að troðast undir og vera laminn, en ef einhver dettur líða í mesta lagi þrjár sekúndur þangað til allir næststandandi eru búnir að hífa hann upp aftur. Stebbi súmmerar þetta alltaf upp í sömu setningunni: „Ekkert helvítis kjaftæði!“ 
 
Engin hátíð ef einhverjum er nauðgað

Fleiri taka undir með Steinunni að þessi skilaboð forsprakkans Stefáns Magnússnoar skipti miklu fyrir það andrúmsloft sem ríki á Eistnaflugi. „Eitt af þeim atriðum sem gerir Eistnaflug frábrugðið öðrum útihátíðum er að aðstandendur hátíðarinnar hafa löngu gert gestum ljóst að ef einhver er laminn til óbóta eða ef einhverjum er nauðgað þá verði engin hátíð,“ skrifar Reyðfirðingurinn Birkir Viðarsson, söngvari I Adapt, í Facebook-færslu um helgina.

„Þetta er hugsunargangur sem er öðrum mótshöldurum framandi. En þeir tala um að vel gangi þgar fólk er lamið til óbóta og einhverjum er nauðgað. Það hefur áhrif. Slæm áhrif.“
 
„Í alvöru Heiða, ertu að drekka naglalakk?“

Pistill Heiðu hefur kallað á nokkur viðbrögð. Gítarleikarinn Franz Gunnarsson svarar henni á DV.is og segist sjaldan hafa upplifað „jafn jákvæða stemmingu í skemmtanahaldi.“ Hann gagnrýnir Heiðu fyrir að dæma hátíð sem hún hafi verið víðsfjarri út frá fréttaskeytum.

„Í alvöru Heiða, ertu að drekka naglalakk? Ég veit ekki hvaða útihátíð þú ert að lýsa úr þinni fortíð en í guðanna bænum gerðu okkur hátíðagestum þann greiða að leita þér hjálpar ef eitthvað bjátar á í sálartetrinu. Þessi lýsing á engan veginn við Eistnaflug. Ég hef spilað á fjölmörgum útihátíðum í gegnum tíðina og hef því samanburð.”

„Eistnaflug nær saman öllu því besta í mannlífinu“

Birgir Jónsson, framkvæmdastjóri Odda framleiðslu, þakkar fyrir sig með aðsendri grein á Pressunni en hann hefur spilað á fleiri en einni Eistnaflugshátíð. „Þetta er alls ekki útihátíð eða þvílík samkoma þar sem tónlistaratriði eru oft notuð sem ástæða til að safnast saman og stunda ólifnaði og dólgslæti og fæstir muna eftir því hver var að spila. Eistnaflug nær saman öllu því besta í mannlífinu því þar koma saman vel á annað þúsund gesta til að hlusta á fleiri hundruð tónlistarmenn flytja frumsamda tónlist.

Það er nefnilega öllum mikið metnaðarmál að fallegu blómin í blómabeðinu fyrir utan Egilsbúð séu jafnfalleg á mánudeginum eftir hátíðina eins og þau voru áður en hátíðin hófst. Það er varla að það þurfi að tína upp rusl eftir að hátíðinni lýkur. Eftir hátíðina þá lítur málaskrá lögreglunnar út eins og eftir venjulegt sveitaball, smá mál hér og þar en ekkert í líkingu við svokallaðar útihátíðir eða aðrar bæjarhátíðir.“

„Heimafólkið alltaf tilbúið að skutla á Skorrastað“

Magnús Helgason, viðskiptaritstjóri Vísis.is og Stöðvar 2, þakkar heimamönnum gestrisnina. Hann kom austur, gisti á Skorrastað, renndi fyrir fisk í Norðfjarðará og leit við á tónleikunum. Í grein á Vísi veltir hann fyrir sér hvatanum að baki ferðalögum Íslendinga og hversu erfitt sé að giska á hvers menn minnist úr ferðalaginu við heimkomu.

„Ferðin á Eistnaflug er ágætt dæmi um það, en þar stendur helst upp úr hvað öll umgjörðin á hátíðinni var vinaleg, tónleikaskipulag gott, heimafólkið alltaf tilbúið að skutla á Skorrastað, með bros á vör, og vesen almennt margfalt minna en á öllum útihátíðum sem ég hef farið á hér á landi.“

Stemming á Eistnaflugi 2012, þar sem allir voru vinir. Bassaleikari Cephalic Carnage týndi peningaveskinu þegar hann henti sér út í áhorfendaskarann en því skilað fljótt aftur mmeð öllu sem í því var. Mynd: Steinunn Friðriksdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.