„Ég hef einmitt smakkað þannig hamborgara í Reykjavík“

„Krökkunum finnst ótrúlega gaman að fá ömmu og afa í hús, auk þess sem það er ekki á hverjum degi sem við fáum pönnukökur,“ segir Lísa Lotta Björnsdóttir, leikskólastjóri á Lyngholti á Reyðarfirði, en eldri borgurum á staðnum var boðið í sólarpönnukökur í dag á Degi leikskólans.


„Við höfum bæði haldið Dag leikskólans hátíðlegan hér í Lyngholti ásamt því að bjóða eldri borgurum í sólarpönnukökur á þessum árstíma. Í fyrra ákváðum við að slá þessum tveimur dögum saman og bjóða eldri borgurum í pönnukökur á Degi leikskólans,“ segir Lísa Lotta.

Lísa Lotta segir að ýmis verkefni sem tengjast sólarkomunni hafi verið unnin upp á síðkastið. „Við höfum komið að fræðslu um sólina og skapað sólarmyndir sem meðal annars eru til sýnis í Molanum, en við höfum fengið að koma með myndir þangað á Degi Leikskólans undanfarin ár. Við höfum útskýrt fyrir krökkunum að þau hafi ekki séð sólina í bænum síðan fyrir jól og með sólarkaffinu séum við að gleðjast yfir því að farið sé að glitta í hana í garðinum okkar, við getum farið að vera meira úti og þess háttar.“

Lísa Lotta segir að snilldarsetning hafi fallið á einni deildinni í morgun þar sem kennari var að útskýra viðburð dagsins fyrir nemendum. „Kennarinn sagði þeim að í dag fengju þau eldri borgara í heimsókn í leikskólann, en þá sagði einn þriggja ára gamall nemandi; „Ég hef einmitt smakkað þannig hamborgara í Reykjavík,“ – við gátum ekki sagt mikið meira um þetta,“ sagði Lísa Lotta brosandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar