Skip to main content

Eftirréttameistari býður til borðs á Nielsen

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. jún 2022 16:34Uppfært 23. jún 2022 16:39

„Afi gamli vildi alltaf að ég yrði læknir eða lögfræðingur en mig langaði að læra einhverja iðn og hér er ég nú,“ segir Ólöf Ólafsdóttir, eftirréttameistari Íslands 2021, sem næstu þrjá dagana býður gestum og gangandi upp á dýrindis eftirrétti á veitingastaðnum Nielsen á Egilsstöðum.

Þetta er líklega í allra fyrsta skiptið sem formlegur eftirréttameistari mætir austur á land og sýnir sínar bestu hliðar fyrir sælkera en eins og alþjóð veit er góður eftirréttur rúsínan í pylsuendanum á öllum góðum máltíðum.

Ólöf mun reiða fram girnilega eftirrétti, og hráefnið hundrað prósent úr héraði, næstu þrjú dægrin á veitingahúsinu Nielsen en þar gefst gestum færi á að panta tvo mismunandi eftirrétti eftir Ólöfu fram til laugardags. Annars vegar „skyrmús“ með súkkulaði, kerfilgeli og kerfilkexi plús hundasúrusorbeti og hins vegar gamaldags kransaköku með þurrkuðum rabbabara, mjólkursúkkulaði og rabbabarageli. Pièce de résistance er svo konfektmoli úr hvítsúkkulaði með aðalbláberjalíkjör í lokin. Austurfrétt getur vottað að seinni rétturinn er aldeilis frábær endalok á góðum kvöldverði.

Sjálf hefur Ólöf að mestu starfað á veitingahúsum í höfuðborginni en hún lærði iðn sína í kóngsins Kaupmannahöfn. Þetta er í fyrsta skipti sem hún býður fram krafta sína á veitingahúsi utan Reykjavíkur og segir Egilsstaði hafa komið þægilega á óvart. Ekki sé oft sem hún geti sótt hráefni í eftirrétti sína beint í næsta garði.

Ólöf á verönd veitingahúss Nielsen á Egilsstöðum. Óvitlaust fyrir sælkera að halda þangað og fá eftirrétti frá Íslandsmeistara.