Dramatískur sigur Fjarðabyggðar

Fjarðabyggð vann í kvöld Víking á Eskifjarðarvelli 3-2 í 1. deild karla í knattspyrnu. Mörk Fjarðabyggðar komu öll á seinustu tíu mínútum leiksins.

 

ImageVíkingar komust yfir snemma leiks og bættu öðru marki við á 75. mínútu. Fram að þeim tíma höfðu bæði liðin fengið sinn skerf af færum. Við annað mark gestanna kviknaði neisti í liði Fjarðabyggðar. Á 81. mínútu skoraði Grétar Örn Ómarsson með skalla eftir hornspyrnu Jóhanns Benediktssonar, en horn- og aukaspyrnur hans höfðu jafnan skapað ógn upp við mark Víkinga. Fimm mínútum síðar var það önnur aukaspyrna Jóhanns sem markvörður Víkinga hélt ekki. Boltinn féll til Sævars Harðarsonar sem hnoðaði boltanum í markið og skoraði sitt fyrsta mark fyrir Fjarðabyggð.
Víkingar sóttu eftir jöfnunarmarkið og fengu mjög góð færi. Einu sinni björguðu Fjarðabyggðarmenn á línu og gestirnir virtust eiga að fá víti þegar varnarmaður Fjarðabyggðar ruddi niður sóknarmanni sem var á fleygiferð framhjá honum.
Ekkert var dæmt þá en þegar um þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma dæmdi Halldór Breiðfjörð, aukaspyrnu. Jóhann tók hana og eftir klafs í teignum barst boltinn til Grétars sem tók hann viðstöðulaust á lofti og sneiddi niður í hornið fjær við gríðarlegan fögnuð heimamanna. Fjarðabyggð er því enn með í baráttunni um sæti í 1. deild að ári, en um helgina vann liðið ÍR 1-0 með marki Jóhanns.
Tapið fór greinilega í skapið á Leifi Garðarssyni, þjálfara Víkings, sem fór inn í búningsklefa, sagði trúlega fáein orð og tók tösku sína og strunsaði síðan út í rútu þar sem hann beið eftir leikmönnum strax eftir leik. Víkingum hefur gengið illa að undanförnu og var leikurinn í kvöld þeirra fjórði tapleikur í röð, þar af hafa þrír leikjanna tapast á seinustu stundu. Hann reyndi að skipta reyndari leikmönnum inn á, svo sem Jakob Spansberg, sem skoraði seinna mark þeirra, Jökli Elísabetarsyni og Christopher Steven Vorenkamp í von um að verja forystuna.

Höttur kom á óvart og vann Reyni Sandgerði, næst efsta lið 2. deildar, 0-2 í Sandgerði á laugardag. Jónatan Logi Birgisson og Vilmar Freyr Sævarsson skoruðu mörkin í seinni hálfleik. Þetta var fyrsti sigur Hattar í heilan mánuð, en liðið hafði leikið fimm leiki í röð án sigurs. Þetta var einnig fyrsti sigur liðsins gegn Suðurnesjaliði, en bölvun hefur hreinlega virst ríkja á Egilsstaðaliðinu gegn mótherjum af Reykjanesi í sumar. Hattarmenn eru komnir með 23 stig sem ætti að minnsta kostiað duga liðinu til að halda sæti sínu í deildinni.

Í þriðju deild karla er Huginn kominn í annað sætið eftir 0-3 sigur á Draupni. Egill Þorsteinsson, Ljubisa Radovanovic og Jeppe Opstrup skoruðu mörkin. Einherji missti endanlega af sæti í úrslitakeppninni með 2-2 jafntefli gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Símon Svavarsson kom Einherja yfir á lokamínútu fyrri hálfleiks en Daði Már Steinsson, sem tekið hefur við vítunum eftir hörmulegt klúður Vilbergs Marinó Jónassonar gegn Huginn, jafnaði fyrir Leikni með marki úr vítaspyru eftir um klukkustundarleik. Á sama tíma fékk Sigurður Donys Sigurðsson, fyrirliði Einherja, sitt annað gula spjald og þar með það rauð. Þrátt fyrir það kom Gunnlaugur Bjarni Baldursson Vopnfirðingum yfir á ný þegar um kortér var eftir af leiknum. En þegar komið var framí uppbótartíma var dæmd önnur vítaspyrna á Einherjamenn. Daði Már fór aftur á punktinn og skoraði. Eftir leik fékk Tomislav Bengun rautt spjald. Bæði rauðu spjöldin voru fyrir ónot gagnvart dómara leiksins.

Huginn og Einherji mætast á Vopnafirði á laugardag. Ef Huginn vinnur fer liðið í úrslitakeppnina en Einherji hefur unnið allar þrjár viðureignir liðanna í sumar. Leikbönn auðvelda Vopnfirðingum ekki vinnuna. Á fundi aganefndar KSÍ í dag var Bengun dæmdur í tveggja leikja bann en Sigurður Donys fékk einn leik. Arnar Geir Magússon fékk einnig eins leiks bann vegna fjögurra áminninga í sumar.

Fjarðabyggð/Leiknir og Höttur luku keppni í 1. deild kvenna þetta sumarið þegar liðin mættust á Eskifjarðarvelli. Jóna Ólafsdóttir, Fanney Þórunn Kristinsdóttir og Magdalena Anna Reimus skoruðu mörk Hattar í 0-3 sigri. Höttur varð í næst neðsta sæti riðilsins með sjö stig, þar af sex sem unnust gegn Fjarðabyggð/Leikni sem varð neðst án stiga.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.