„Coco Chanel, Édith Piaff og Picasso. Sjitt, það yrði gott partý!“

Heiðdís Halla Bjarnadóttir er grafískur hönnuður og myndlistarkona. Hún verður með sýningu á verkum sínum í Frystiklefanum á Borgarfirði eystri í kvöld. Sýningin er hluti af Dögum myrkurs.


„Ég er að sýna sambland af verkum mínum. Ég er með litríkar landslagsmyndir frá Austurlandi, ljóðmyndir og svo myndir og veggverk sem ég kalla FORM,“ segir Heiðdís.Hún segir að undirbúningurinn hefi gengið vel fyrir utan að hún hefði viljað hafa tíma til að búa til ný verk. En það hafi verið gaman og gefandi að fara yfir farinn veg og taka saman verkin sín. Hugurinn fer þó á flug og hún er komin með fullt af hugmyndum fyrir næstu verkefni.


Fyrir utan sýninguna á verkum Heiðdísar verður kærasti hennar Ásgrímur Ingi Arngrímsson með ljóðalestur fyrir gesti heitu pottanna. „Auður Vala, eigandi Blábjarga hafði samband við mig og bauð mér að sýna verkin mín og Ásgrími Inga að lesa ljóðin sín á Dögum Myrkurs. Ásgrímur Ingi er frá Borgarfirði og við höfum búið þar meira og minna síðastliðin 10 sumur. Það er bara gaman að taka þátt og vera með í menningunni á Austurlandi,“ segir hún um tilurð þessa verkefnis.


Heiðdís segir þau skötuhjúin vinna vel saman. „Hann hefur stutt mig og hvatt í mínu og ég hann í sínu. Ég hef mjög gaman af ljóðunum og textunum hans, hann er mjög snjall textasmiður. Þetta er í þriðja sinn sem við gerum eitthvað svona saman. Ég gerði einu sinni myndrænt verkefni eftir ljóðunum hans og svo setti ég upp og hannaði kápuna á síðustu ljóðabók hans sem kom út 2016,“ segir Heiðdís.


Heiðdís rekur hönnunarfyrirtækið DUO. með samstarfskonu sinni. Hún er nýverið flutt til Egilstaða og segir að það hafi verið krefjandi að flytja DUO. úr vinnustofunni á Akureyri og koma sér fyrir á nýjum markaði hér fyrir austan. Hún hefur þó engar áhyggjur af því, það sé eðlilegt að það taki smá tíma að skapa sér sess á nýjum stað.


Framtíðin er björt hjá Heiðdísi en hún segist stefna að því að klára nokkur verk til að geta tekið þátt í Hönnunarmars 2020 í Reykjavík. „Ég er líka að hanna dagatal fyrir 2020 sem ég mun selja og svo er ég á fullu að undirbúa næstu Handverkshátíð í Hrafnagili,“ segir hún að lokum en Heiðdís Halla er í yfirheyrslu vikunnar.

Yfirheyrslan:
Fullt nafn: Heiðdís Halla Bjarnadóttir.
Aldur: 38 ára.
Starf: Grafískur hönnuður og framhaldsskólakennari.
Maki: Ásgrímur Ingi Arngrímsson.
Börn: Ólöf Elsa.
Áhugamál? Hönnun, listir, menning og samvera með vinum og fjölskyldu.
Mesti áhrifavaldur í listheiminum? Björk og Chanel.
Þú ert með matarboð, hvaða þremur einstaklingum úr mannkynssögunni myndir þú bjóða og af hverju? Coco Chanel, Édith Piaff og Picasso. Sjitt, það yrði gott partý!
Hver er uppáhaldsstaðurinn þinn á Austurlandi? Vök Baths er í svakalegu uppáhaldi þessa dagana. Þvílík snilld!
Hver er þinn helsti kostur? Hugmyndarík og framkvæmdaglöð.
Hver er þinn helsti ókostur? Óþolinmæði.
Hver er alltaf til í ísskápnum hjá þér og af hverju? Ostur. Ostur er góður.
Ertu nammigrís? U já.
Kaffi eða te? Kaffi. Alltaf kaffi.
Hvað er leiðinlegasta húsverkið og af hverju? Að hengja upp úr vélinni. Það er mökkleiðinlegt. Ég veit ekki afhverju. Ekkert mál að setja í vélina og ganga frá þvottinum en að hengja upp fer alveg með mig.
Hvernig er týpískur dagur hjá þér? Ofhlaðinn en oftast skemmtilegur.
Hver er þín helsta fyrirmynd? Foreldrar mínir.
Mesta afrek? Dóttir mín.
Duldir hæfileikar? Ég er fáránlega fljót að vaska upp.
Um hvað hugsar þú þegar þú ert ein í bíl að keyra? Það er ágætis tími til að flokka hugsanir og hugmyndir. Ef ferðin er nógu löng er stundum hægt að forgangsraða. Svo er stundum líka bara gott að hækka nógu andskoti mikið í tónlistinni.
Hvað var síðasta gjöf sem þú gafst einhverjum? Ég gaf vinum mínum veggverk í innflutningsgjöf.
Besta bók sem þú hefur lesið? Karítas án titils og Svar við bréfi Helgu, get eiginlega ekki gert uppá milli þeirra.
Hvaða kost í fari einstaklinga kannt þú helst að meta? Húmor.
Topp þrjú á þínum „bucket list“? Læra á brimbretti, læra meira jóga og sýna í París.

 

Heiðdís Halla með verkum sínum. Mynd: Auðunn Níelsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.