Bloodgroup fékk viðurkenningu Kraums

Kraumur, tónlistarsjóður, veitti í dag viðurkenningar fyrir sex hljómplötur sem þóttu skara fram úr í íslenskri plötuútgáfu á árinu. Er þetta annað árið í röð í dag sem slík viðurkenning er veitt. Hljómsveitin Bloodgroup, sem m.a. skartar tónlistarmönnum frá Egilsstöðum, átti eina af plötunum sex, hina nýju Dry Land. Kraumur mun styðja við plöturnar og jafnframt auka við möguleika listamannanna, sem að þeim standa, til að koma verkum sínum á framfæri utan landsteinana.

dry_land.jpg

Mun Kraum kaupa ákveðinn fjölda af plötunum og dreifa til starfsmanna tónlistarhátíða, plötuútgáfa og umboðsskrifstofa í samvinnu við Útflutningskrifstofu íslenskrar tónlistar.

 

Í ár hljóta eftirtaldir listamenn viðurkenningu og stuðning fyrir plötur sínar:

Bloodgroup - Dry Land
Anna Guðný Guðmundsdóttir - Tuttugu tillit til Jesúbarnsins
Helgi Hrafn Jónssonon - For the Rest of My Childhood
Hildur Guðnadóttir - Without Sinking
Hjaltalín - Terminal
Morðingjarnir - Flóttinn mikli

 

Bloodgroup sendi í desemberbyrjun frá sér plötuna Dry Land. Hún er önnur plata sveitarinnar, en sú fyrri, Sticky Situation, kom út haustið 2007 og naut gríðarmikilla vinsælda. Frá því Sticky Situation kom út hefur Bloodgroup ýmist verið á tónleikaferðalögum vítt um heim eða í hljóðupptökuveri við vinnslu Dry Land. Í október 2009 sendi Bloodgroup frá sér fyrsta lagið af nýju plötunni, lagið My Arms, og segja menn að hljómsveitin hafi þróast mikið síðustu tvö árin og til hins betra. Lengi getur því gott batnað.

Bloodgroup skipa þau Hallur Jónsson (hljóðgervlar o.fl.), Janus Rasmussen (hljóðgervlar, söngur o.fl.), Lilja Jónsdóttir, söngvari hljómsveitarinnar og Ragnar Jónsson (hljóðgervlar o.fl.).
Bloodgroup var stofnuð árið 2006 af Janusi og systkinunum Halli, Lilju og Ragnari Jónsbörnum á Egilsstöðum.

Dry Land virðist ætla að slá í gegn svo um munar og skorar hátt á vinsældalistum og í stjörnugjöf. Margir tónleikar eru framundan og til dæmis á sveitin að spila í London á morgun og í Rotterdam á laugardag.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.