Bjóða fólki að njóta skógarins

Árleg Skógargleði verður haldin í Vallanesi á sunnudag. Gleðin hefur yfirleitt fylgst Ormsteiti en öðlast nú sjálfstætt líf. Eymundur Magnússon bóndi í Vallanesi segir markmiðið vera að skapa skemmtilega fjölskyldustund í skóginum.

Þungamiðja Skógargleðinnar verður á Orminum, um 1 km löngum göngustíg í skóginum í Vallanesi sem opnaður var með fyrstu hátíðinni fyrir sjö árum. Hún hefur eignast sína fastagesti en ætla má að milli 200-300 manns sæki gleðina á hverju ári.

Á stígnum verður flutt tónlist, leikin leikverk, lesið upp úr ritverkum og grilluð grænmetisbuff fyrir gesti. Þá verða þar tveir nemar hins þýska skógarlistamanns, Thomasar Rappaports, sem sýna tálgun. Rappaport lést í apríl en hann hafði dvalist í Vallanesi síðustu sumur.

Meiri dagskrá verður einnig við Asparhúsið, bæði tónlist og markaður með vörur frá Vallanesi. Hægt er að komast inn á göngustíginn úr nokkrum áttum, þar með talið frá Asparhúsinu. Þar mun einnig Orri Arboristi sýna trjáklifur í háum öspum og gefa bæði foreldrum og börnum færi á að spreyta sig.

Skógargleðin hefur síðustu ár verið hluti af hátíðinni Ormsteiti en þar sem hún hefur verið flutt á nýjan tíma í september öðlast Skógargleðin sjálfstætt líf. „Hún er ekki undir Ormsteitinu komin. Fólk er mikið á ferðinni á þessum tíma og við gefum frekar í heldur en hitt,“ segir Eymundur.

Hann segir markmið bæði hátíðarinnar og göngustígsins að hvetja fólk til að njóta skógarins. „Ég elska skóg og mér finnst mikil heilsubót í að ganga í honum. Stígurinn var okkar leið til að deila skóginum með öðrum. Hann er opinn almenningi og við sjáum að fólk notar sér stíginn töluvert.

Með hátíðinni viljum við bæði draga fólk inn í skóginn og á göngustíginn. Um leið búum við til fjölskylduvæna samverustund.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.