Bjóða Austfirðingum að smakka mat utan úr heimi

Fulltrúar þrettán landa ætla að bjóða Austfirðingum að koma og smakka mat frá heimahögunum á matarmóti sem haldið verður í Sláturhúsinu á Egilsstöðum á laugardag. Skipuleggjendur segja markmiðið að fá fólk til að staldra við og tala saman.

„Hér býr fólk af ólíkum þjóðernum. Það hafa allir nóg að gera í vinnunni en það er gott að staldra aðeins við og njóta stundarinnar saman.

Það er alltaf gaman þegar fólk eldar sinn uppáhaldsmat og deilir með vinum og fjölskyldum. Það er ánægjulegt að við getum kynnt matarhefðir okkar og hitt annað fólk í leiðinni,“ segir Daria Andronachi sem leitt hefur undirbúninginn í félagi við Tess Rivarola.

Fólk frá þrettán löndum verður með mat á laugardaginn. Í sumum tilfellum eru fleiri en einn hópur frá hverju landi og þar af leiðandi fleiri réttir þaðan. Meðal annars má nefna íslenskar gæsasnittur, kjötkrókettur frá Paragvæ, spænskar tortillur og tékkneska sveppasúpu.

Sjálf verður Daria með manni sínum Dorin með land frá þeirra heimalandi, Moldóvu, sem kallast „Friptura“. „Þetta er svínakjöt, steikt upp úr lauk, hvítlauk og fleiru sem gefur dásamlegan ilm. Síðan verðum við með mamaliga, brauð úr maís. Þetta er hátíðarmatur sem er eldaður um jólin eða þegar stórfjölskyldan hittist – enda verður þetta eins og fjölskylduboð.“

Hún segir viðburðinn í raun þrískiptan. Í fyrsta lagi sé það maturinn. Í öðru lagi verði það flutningur á alþjóðlegri tónlist sem Charles Ross leiðir og í þriðja lagi tækifærið til að hittast og tala saman. Hún segir áhuga á matarmótinu.

„Við erum afar þakklát fyrir þau viðbrögð sem við fengið. Þau gáfu okkur mikla orku. Miðað við það sem við heyrum þá eigum við von á mörgum gestum.“

Matarmótið hefst klukkan 17:00 og er gert ráð fyrir að það standi í um tvo tíma – að því gefnu að birgðirnar endist það lengi. „Þetta er ekki kvöldmatur heldur smakk. Það er hins vegar best að koma sem fyrst. Þegar hlutirnir snúast um mat þá vilja allir koma.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.