Á batavegi eftir lærbrot

,,Ei skal haltr ganga meðan báðr fætr eru jafnlangr"

guttormur_ormar.jpgGuttormur V. Þormar bóndi í Geitagerði í Fljótsdal, lærbrotnaði er hann var við gegningar fyrsta febrúar síðastliðinn. Hann er á batavegi þar sem hann liggur nú á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, þangað sem hann var fluttur með sjúkraflugi strax eftir slysið og grær sára sinna.

Guttormur sem er 86 ára, var að fara með hey sem hann hafði troðið í ullarballa og ætlaði að gefa hestum sem eru í skógargirðingu þar skammt frá.

,,Dyrnar voru of þröngar fyrir ullarballann og þegar hann small útfyrir dyrastafinn hnaut ég fram fyrir mig og datt á frosna jörðina og vinstri lærleggur gekk sundur rétt fyrir ofan miðjan legg.  Ég reis á fætur og paufaðist upp í bílinn sem stóð rétt hjá mér, minnugur orða Gunnlaugs ormstungu sem sagði ,,Ei skal haltur ganga meðan báðir fætur eru jafnlangir".  Ég komst inn í bílinn og hagræddi mér þar, keyrði síðan heim að íbúðarhúsinu sem eru um 200 metrar. Það gekk nú frekar brösulega vegna þess að bíllinn er beinskiptur og ég þurfti að færa hægri fótinn af kúplingunni yfir á bensíngjöfina án þess að kæfa á bílnum. Ég fór útúr bílnum heima á hlaði og settist á lerkikurlpoka við hestasteininn, treysti mér ekki inn í bæ vildi ekki fara í tröppurnar.   Ég var með GSM síma á mér en gekk illa að ná sambandi í hann, tókst ekki að ná í 112, sló sennilega inn vitlausar tölur, var síðan að reyna að ná í krakkana mína sem búa í Reykjavík, hef sennilega slegið inn rangar tölur vegna þess að þá ansaði á kennarastofu í Reykjavík, Laugalækjarskóli að ég held.  Þau hringdu síðan strax austur og pöntuðu sjúkrabíl fyrir mig, ég kann þeim mínar bestu þakkir fyrir það.  Þetta tók nú allt dálítinn tíma en sjúkrabíllinn var snöggur á staðinn frá Egilsstöðum, hann var kominn eftir rúmlega 20 mínútur.   Ég var vel klæddur og lagðist fyrir þarna úti meðan ég beið, var í fóðruðum vinnugalla og leið eins og ég væri í dúnpoka" sagði Guttormur.

Guttormur var fluttur með sjúkrabíl í Egilsstaði og þaðan með sjúkraflugi til Akureyrar þar sem hann fór í aðgerð.  Brotið var spengt og skrúfað saman.   Guttormur verður á sjúkrahúsinu á Akureyri fram yfir helgi, hann er farinn að ganga um þó hann getir ekki enn stigið í fótinn.

,,Ég fer svona þrjár ferðir á dag hérna um gangana í göngugrind" segir Guttormur V. Þormar að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.