Íbúar Fjarðabyggðar krefjast Norðfjarðarganga

Í gærkvöld var haldinn opinn borgarafundur að tilhlutan sveitarfélagsins Fjarðabyggðar um Norðfjarðargöng. Fundurinn var á Eskifirði og á hann mættu um 270 manns. Í ályktun sem fundurinn samþykkti segir að íbúar Fjarðabyggðar geri þá eindregnu kröfu til þingmanna kjördæmisins og ráðamanna í samgöngumálum að hert verði sem aldrei fyrr baráttan fyrir því að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist strax að loknum Héðinsfjarðargöngum.

fundur1.jpg

Opinn borgarafundur, haldinn í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði ,mánudaginn 14. desember 2009 ályktar:

 

,,Á undanförnum misserum hafa náðst mikilvægir áfangar í samgöngum innan Fjarðabyggðar.  Enn stendur versti farartálminn þó eftir – einbreið göng í meira en 600 metra hæð í Oddsskarði milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.

 

Við íbúar Fjarðabyggðar gerum þá eindregnu kröfu til þingmanna kjördæmisins og ráðamanna í samgöngumálum að herða sem aldrei fyrr baráttuna fyrir því að framkvæmdir við Norðfjarðargöng hefjist strax að loknum Héðinsfjarðargöngum.

 

Við gerum þá kröfu til samgönguyfirvalda að löngu gefin fyrirheit um Norðfjarðargöng verði efnd, enda er alls ekki hægt að líta svo á að sveitarfélagið sé að fullu sameinað fyrr en göngin hafa verið tekin í notkun.

 

Við minnum á að í sveitarfélaginu  Fjarðabyggð, norðan Oddsskarðs, eru starfandi m.a., Fjórðungssjúkrahús Austurlands, Verkmenntaskóli Austurlands og eitt stærsta útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki landsins.  Sunnan Oddsskarðs við Mjóeyrarhöfn er 7-800 manna vinnustaður, sá stærsti á Austurlandi.  Um þann erfiða fjallveg, sem Oddsskarði er, fara fram gífurlegir flutningar á fólki, vörum og gjaldeyrisskapandi sjávarafurðum til útflutnings.

 

Við minnum á að íbúar Fjarðabyggðar hafa verið í forystu á Íslandi um sameiningu sveitarfélaga og staðið eindregið með stefnu stjórnvalda í sameingarmálum.

 

Tryggja þarf að upphaf framkvæmda við Norðfjarðargöng verði strax að loknum Héðinsfjarðargöngum 2010-11.“

 

,,Í gang með Norðfjarðargöng.”

 

 

Ekki öll nótt úti 

 

Í máli samgönguráðherra, sem ávarpaði fundinn, kom fram að Norðfjarðargöng eru nú tæk til útboðs og hefur undirbúningsvinna að göngunum kostað um 200 milljónir króna. Þau hefðu átt að fara í útboð nú á vetrarmánuðum en fjárhagslegt hrun þjóðarinnar komið í veg fyrir að að því gæti orðið. Gert er ráð fyrir að framkvæmdin kosti um 8 milljarða króna og er um að ræða 7,8 km löng göng með 5,5 og 2 km vegtengingum beggja vegna. Samgönguráðherra sagði mögulegt að göngin kæmust á nýja samgönguáætlun á næsta ári, yrðu boðin út það ár og framkvæmdir hafnar 2011. Allt byggðist það þó á því hvaða fjármunir fengjust til samgöngumála á næstu misserum.

 

 

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri Alcoa á Íslandi hnykkti, ásamt forystumönnum hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað, Verkmenntaskóla Austurlands, Eimskip, Tanna Travel, Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað og sveitarfélaginu Fjarðabyggð á mikilvægi þess að göngin yrðu sett strax í framkvæmd. Það hefði úrslitaáhrif á stöðu Norðfjarðar, atvinnulífs og mannlífs á svæðinu. Jafnframt var því beint til ráðherra sveitarstjórnar- og samgöngumála að erfitt kynni að verða að skikka sveitarfélög til frekari sameiningar fyrr en samgöngur kæmust í viðunandi horf og sameining Fjarðabyggðar fyrir nokkrum árum hefði meðal annars byggst á vilyrði um að göngunum yrði hraðað.

Gerður var góður rómur að þeim útreikningum Sveins Sigbjarnarsonar hjá Tanna Travel að nú væru Fæeyingar búnir að grafa tæpan metra af jarðgöngum á hvern haus í Færeyjum, en á sama tíma hefðu Íslendingar grafið 14 cm á hvert mannsbarn hérlendis. Þótti það lýsa íslenskum jarðgangamálum ágætlega.

 

 

 

-

Nánar verður fjallað um fundinn í Austurglugganum eftir jól.

fundur2.jpg

 

 

 

 

Myndir/SÁ

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.