Bæjarstjóri Fjarðabyggðar stígur á stokk á útgáfutónleikum Austurvígstöðvanna

„Ég vona að fólk fjölmenni, en það er ekki á hverjum degi sem austfirskt pönk er flutt í höfuðborginni,“ segir Jón Knútur Ásmundsson, trommuleikari ljóðapönksveitarinnar Austurvígstöðvanna, sem sendi frá sér hina umdeildu hljómplötu Útvarp Satan í júní og verður með útgáfutónleika í Bæjarbíói í Hafnarfirði í kvöld.


„Við héldum reyndar tónleika fyrir austan í sumar sem við kölluðum útgáfutónleika en langaði einnig að hafa slíka á höfuðborgarsvæðinu – ef maður gerir A þá þarf maður líka að gera B,“ segir Jón Knútur, en húsið opnar 19:30 og talið verður í fyrsta lag stundvíslega klukkan 20:30.

„Bæjarbíó orðið einn helsti tónleikastaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu auk þess sem Davíð Þór Jónsson, söngvari sveitarinnar, er Hafnfirðingur og þótti okkur staðsetningin því viðeigandi, en hann tók þátt í leikfélagsuppfærslum í húsinu þegar hann var barn.“

Vínilplöturnar seldust upp á nokkrum dögum
Útvarp Satan kom út á sjómannadaginn og segir Jón Knútur viðtökurnar hafa farið fram úr björtustu vonum, en sveitin gaf út 300 geisladiska og 50 vínilplötur. „Sala er reyndar ekkert viðmið lengur þar sem diskar eru hættir að seljast. Vínilplatan seldist þó upp á nokkrum dögum og við höfum verið talsvert spiluð á Spotify og öðrum tónlistarveitum. Spilerí sumarsins gekk svo mjög vel enda platan búin að vekja heilmikla athygli löngu áður en hún kom út.“

Von er á hörku tónleikum
Jón Knútur segir að gestir megi búast við hörku fínum tónleikum í kvöld. „Við ætlum að flytja plötuna í heild sinni og jafnvel taka tvö ný lög sem fjalla um málefni líðandi stundar, annars vegar lagið Svínastía og hins vegar lagið Ulla á hana. Við erum ekki virk í athugasemdum netmiðla, heldur „kommenterum“ með því að semja pönklög.“

Hin goðsagnakennda pönkhljómsveit Saktmóðigur stígur einnig á stokk í Bæjarbíói í kvöld, en hún er flestum rokkunnendum á Íslandi vel kunn og gaf nýverið út sína áttundu afurð, breiðskífuna Lífið er lygi.

„Þar er bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Karl Óttar Pétursson, í broddi fylkingar sem í sjálfu sér er mjög áhugavert. Það er svo enginn annar en Reyðfirski fréttamaðurinn Helgi Seljan sem kynnir böndin á svið og heldur uppi stemmningu milli atriða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar