Aðventuganga Benedikts á Skriðuklaustri, í Reykjavík og Kaupmannahöfn

gunnargunnarsson_adventa_kilja.jpgAðventa, skáldsaga Gunnars Gunnarssonar, verður lesin á þremur stöðum í tveimur löndum um helgina. Lestur hennar er orðinn fastur viðburður í jólatilveru margra.

 

Skáldsagan Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson er klassískt verk sem margir taka sér í hönd í desember, ekki bara hér á landi heldur einnig erlendis. Sá siður var tekinn upp hjá Gunnarsstofnun á Skriðuklaustri árið 2005 að lesa alla Aðventu Gunnars Gunnarssonar upphátt fyrir gesti á þriðja sunnudegi í aðventu. Óhætt er að segja að þessi siður hafi breiðst út því að Ríkisútvarpið hefur nú í nokkur ár haft Aðventu sem útvarpssöguna á Rás 1 síðustu vikuna fyrir jól með nýjum lesara hverju sinni. Þá hefur Aðventa einnig verið lesin hjá Rithöfundasambandi Íslands í Gunnarshúsi í Reykjavík á sama tíma og á Skriðuklaustri.

Að venju verður Aðventa lesinn á Skriðuklaustri á sunnudaginn 12 desember. Lesturinn hefst kl. 14 og að þessu sinni les Ragnheiður Steindórsdóttir leikkona söguna. Allir eru velkomnir til að njóta kyrrðarstundar frá jólaamstrinu og gestir geta fengið sér jólakökur hjá Klausturkaffi. Á sama tíma stendur Rithöfundasambandið fyrir upplestri á Dyngjuvegi 8 í Reykjavík og hefur Silja Aðalsteinsdóttir, ritstjóri og fræðikona, lesturinn kl. 13.30. Þeir sem eru staddir í Kaupmannahöfn geta notið lesturs Aðventu í Jónshúsi því að öðru sinni stendur Sendiráð Íslands í samvinnu við Jónshús og Bókasafn Jónshúss nú fyrir lestri á sögunni. Í Jónshúsi hefst lesturinn kl. 15 að staðartíma og meðal lesara verður Sturla Sigurjónsson sendiherra.

Boðskapur Aðventu um þrautseigju og þolgæði Benedikts og förunauta hans, hundsins Leós og sauðsins Eitils, á heilmikið erindi við Íslendinga í dag. Sagan er í raun tímalaus þó að söguefnið sé sótt í raunverulegar svaðilfarir á Mývatnsöræfum á þriðja áratug síðustu aldar. Og allt frá því hún kom fyrst út árið 1936 hefur hún heillað lesendur víða um heim og m.a. verið endurútgefin reglulega í Þýskalandi þar sem hún hefur selst í um hálfri milljón eintaka á síðustu 70 árum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.