Austfirskar björgunarsveitir frá tólf milljóna styrk úr sjóði Alcoa

Samfélagssjóður Alcoa í Bandaríkjunum (Alcoa Foundation) hefur ákveðið að styrkja björgunarsveitir á Austurlandi um 100.000 Bandaríkjadali næstu tvö árin, eða sem nemur um 12,5 milljónum króna. Styrkurinn verður stofnframlag í menntunarsjóð björgunarsveitarmanna á Austurlandi. Hafsteinn Viktorsson, framkvæmdastjóri framleiðslu hjá Alcoa Fjarðaáli, afhenti björgunarsveitunum styrkinn í dag.

 

bjorgunarsveitir_alcoa_web.jpgFrá þessu er greint í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu í dag.

Á Austurlandi starfa tæplega 600 sjálfboðaliðar í 12 björgunarsveitum og þar af eru um 350 á útkallslista. Í slysavarnar- og unglingadeildum á Austurlandi eru um 700 manns. „Það er gott að búa í samfélagi þar sem fjöldi sjálfboðaliða er tilbúinn til leitar og hjálparstarfa dag og nótt, oftast við afar erfið skilyrði. Þetta framlag Samfélagssjóðs Alcoa er viðurkenning á ómetanlegu starfi björgunasveitarfólks á Austurlandi og þakklætisvottur fyrir vel unnin störf,“ sagði Hafsteinn Viktorsson þegar hann afhenti styrkinn.

Guðjón Már Jónsson, formaður svæðisstjórnar á Austurlandi, veitti styrknum viðtöku fyrir hönd björgunarsveitanna í húsnæði Björgunarsveitarinnar Ársólar á Reyðarfirði „Styrkurinn hjálpar okkur meðal annars að uppfylla það metnaðarfulla markmið Slysavarnarfélagsins Landsbjargar að allir á útkallslistum björgunarsveitanna ljúki umfangsmiklu grunnnámi björgunarsveitarfólks, en það er markmið sem félagið hefur nýverið sett sér. Styrkurinn auðveldar okkur einnig að byggja upp framtíð björgunarsveitanna með því auka og efla unglingastarf innan þeirra.  Þá verður einnig hægt að kalla eftir stærri námskeiðum hingað austur og sá möguleiki opnast að senda okkar fólk jafnvel utan til að afla sér þekkingar, öllum til hagsbóta,” sagði Guðjón.

Við afhendingu styrksins þakkaði Eiður Ragnarsson, stjórnarmaður Slysavarnarfélagsins Landsbjargar þá framsýni Samfélagssjóðs Alcoa að veita þessum peningum til menntunar björgunarsveitafólks á Austurlandi. „Við vitum öll að mennt er máttur og þessi styrkur á eftir að efla björgunarsveitirnar og starf þeirra á Austurlandi, samfélaginu til heilla,” sagði Eiður.

Á síðasta ári veittu Alcoa Fjarðaál og  Samfélagssjóður Alcoa rúmlega 56 milljónum króna til 65 samfélagsverkefna á Íslandi. Sjóðurinn var stofnaður fyrir 56 árum og hefur frá upphafi veitt um 500 milljónum Bandaríkjadala (64 milljörðum króna) til samfélagslegra verkefna í þeim löndum um allan heim, þar sem fyrirtækið er með starfsstöðvar. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.