Skip to main content

Atvinnuleitarmiðstöð opnuð í Fjarðabyggð

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. apr 2009 08:31Uppfært 08. jan 2016 19:19

Í gær var staðfest samkomulag um rekstur miðstöðvar fólks í atvinnuleit í Fjarðabyggð. Hún verður til húsa að Búðareyri 1 á Reyðarfirði, en einnig verður þjónustu við atvinnuleitendur sinnt í starfsstöðvum AFLs og Þekkingarnets Austurlands víðar í Fjarðabyggð. Þegar er búið að ráða starfsmann til miðstöðvarinnar og er það Guðrún Sælín Sigurjónsdóttir. 475 eru nú skráðir atvinnulausir á Austurlandi, 295 karlar og 180 konur.

atvinnuleit_vefur_3.jpg

Þeir sem koma að stofnun miðstöðvar fólks í atvinnuleit í Fjarðabyggð eru AFL starfsgreinafélag, VR, Reyðarfjarðardeild Rauða kross Íslands, Þekkingarnet Austurlands og Vinnumálastofnun auk sveitarfélagsins Fjarðabyggðar. Þekkingarnet Austurlands mun leiða verkefnið.

 Markmiðið með rekstri miðstöðvarinnar er að bjóða íbúum Fjarðabyggðar sem eru í atvinnuleit upp á samþætta þjónustu og tækifæri til að finna kröftum sínum viðnám, ásamt því að byggja upp starfsemi miðstöðvarinnar í formi námskeiða, náms- og starfsráðgjafar og annarrar ráðgjafar og þjónustu. Jafnframt verður leitast við að greiða götu fólks að námsleiðum í framhalds- og háskólum. Miðstöðin verður opin alla virka daga frá níu til fjögur.