Átti stóran hlut í að kynna íslenskar bókmenntir erlendis

Málþing verður haldið í Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík á morgun um arfleifð Stefáns Einarssonar úr Breiðdal í rannsóknum á íslenskum bókmenntum. Heimildir sem Stefán aflaði á fyrri helmingi síðustu aldar eru nýttar til skrifa enn í dag.

„Stefán gaf árið 1957 út íslenska bókmenntasögu á ensku og nokkrum árum síðar á íslensku. Hún var mjög mikilvæg í kynningarsögu íslenskra bókmennta í vestrænum heimi.

Ég held að fáir hafi lagt jafn mikið af mörkum við að kynna íslenskar bókmenntir fyrir umheiminum,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, verkefnastjóri við Rannsóknarsetur Háskóla Íslands á Breiðdalsvík sem stýrir málþinginu á morgun.

Ævistarf Stefáns, sem ólst upp í Breiðdal, var sem prófessor í málvísindum við Johns Hopkins háskóla í Bandaríkjunum. Sérsvið hans var hljóðfræði, hann rannsakaði mállýskur á Austurlandi og tók meðal annars upp í Gamla kaupfélaginu en bókmenntirnar hans aukagrein.

„Á þessum tíma var ekkert internet og lítið um símtöl milli landa. Þess vegna er eitt það merkilegasta sem Stefán skildi eftir sig bréfasafnið hans. Hann skrifaðist á við rithöfunda og annað fólk í íslenska bókmenntaheiminum. Safnið hans er því ómetanleg heimild um íslenskar bókmenntir á fyrri helmingi tuttugustu aldar og aðeins fram yfir það.“

Í byrjun þessa árs kom út Íslenskar bókmenntir: saga og samhengi, tveggja binda verk á vegum Hins íslenska bókmenntafélags. Fimm af sex höfundum bókarinnar tala á málþinginu á morgun.

„Mikið af vinnu Stefáns hefur nýst til að skrifa söguna í dag og það er spennandi að skoða og ræða hvernig hún gerði það en líka hvað hefur breyst,“ segir María Helga.

Á vegum Breiðdalsseturs eru varðveittir munir frá Stefáni og í Gamla kaupfélaginu útstilling með hluta þeirra.

Málþingið hefst klukkan 13:00 á morgun og er reiknað með að það standi í um þrjá tíma.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.