Athafnir teygja sig um land allt

Einn af viðburðum alþjóðlegu athafnavikunnar 16.-22. nóvember n.k. er Athafnateyjan, um er að ræða verkefni sem mæla mun hversu miklu íslenska þjóðin getur komið í framkvæmd á einni viku. Teygjan, sem hægt er að smeygja um úlnlið sér, er send á valin hóp áberandi einstaklinga í athafnalífi, stjórnmálum og fjölmiðlum – fólks sem hefur áhrif á umhverfi sitt og er í aðstöðu til að vera öðrum til fyrirmyndar. Bæjarstjórar landsins, ráðherrar, formenn stjórnmálaflokka, athafnafólk og fjölmiðlamenn munu fá Athafnateygjuna afhenta nk. mánudag, þ.e. í upphafi Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi.

teygjur.jpg

Þegar athafnavikan hefst þurfa handhafar teygjunnar að framkvæma eitthvað til þess að geta svo komið henni áfram í dreifingu. Þetta má vera stór eða lítil framkvæmd – allt frá því að taka til á skrifborðinu í að opna ný jarðgöng. Þegar handhafi teygjunnar hefur framkvæmt eitthvað á að láta teygjuna af hendi til næsta manns eða konu að eigin vali. Sá eða sú þarf svo að framkvæma eitthvað til þess að geta komið teygjunni af sér og hvatt næsta mann til athafnasemi. Hver teygja hefur númer og í hvert skipti sem eitthvað er framkvæmt í tengslum við teygjuna er það skráð á heimasíðu Athafnateygjunnar (athafnateygjan.is). Þannig er hægt að fylgjast með hvaða teygja skilar af sér mestu afköstunum, hvaða sniðugu hlutum fólk kemur í verk og hverju íslenska þjóðin kemur í framkvæmd með athafnateygjunni.

Alþjóðleg athafnavika verður haldin á Íslandi og á sama tíma í yfir 100 löndum. Innovit, nýsköpunar- og frumkvöðlasetur er umsjónaraðili Alþjóðlegrar athafnaviku á Íslandi og sér um skipulagningu, miðlun og kynningu hennar. Tilgangur vikunnar er að virkja alla þjóðina til jákvæðra verka og vekja athygli á mikilvægi athafnasemi fyrir samfélagið í heild sinni. Jafnframt að senda jákvæð og uppbyggileg skilaboð til Íslendinga nú þegar svartsýni og bölmóður er alltof algengt viðhorf í þjóðfélaginu. Snúa við umræðunni um atvinnulífið og gefa Íslendingum tilefni til að horfa björtum augum fram á veginn.

Markmið Alþjóðlegrar athafnaviku er að vekja fólk til umhugsunar um gildi nýsköpunar og athafnasemi í samfélaginu. Lögð er áherslu á að hver einstaklingur geti haft jákvæð áhrif, hvort sem þau eru mikil eða lítil, á sitt eigið líf og samfélagið í kringum sig. Fólk er hvatt til þess að grípa til aðgerða til þess að bæta umhverfi sitt og benda á að allir hafa hlutverki að gegna við að bæta samfélagið.

Sjá nánar dagskrá vikunnar og þemu á www.athafnavika.is.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.