Alltaf gengið vel að selja Rauðu fjöðrina

Lionsfélagar á Austurlandi taka um helgina þátt í landssölu á Rauðu fjöðrinni. Að þessu sinni er safnað fyrir augnbotnamyndavélum sem staðsettar verða á Landsspítalanum.

„Það er hugur í okkur fyrir helginni, það hefur alltaf gengið vel að selja fjöðrina,“ segir Reynir Kjerúlf, formaður Lionsklúbbsins Múla á Fljótsdalshéraði.

Fjórir klúbbar á Austurlandi taka þátt í sölunni að þessu sinni, á Héraði, Seyðisfirði, Eskifirð og Djúpavogi. Félagar koma sér fyrir á fjölförnum stöðum, til dæmis verslunarmiðstöðvum, en á Egilsstöðum hefur verið staðfest að selt verði í Nettó.

Ekki er fast verð á fjöðrinni heldur gefur fólk frjáls framlög til söfnunarinnar og fær afhenta rauða fjöður í staðinn.

Fjöðrin er seld á fjögurra ára fresti og að þessu sinni er safnað fyrir augnbotnamyndavélum sem staðsettar verða á innkirtladeild Landsspítalans og Þekkingarmiðstöð Blindrafélagsins.

Myndavélarnar nýtast einkum sykursjúkum, sjónskertum og blindum. Stefnt er að því að safna fyrir tveimur vélum en hver vél kostar tíu milljónir króna.

Listsýningar, kirkjustarf og matvælasala

Á Skriðuklaustri opnar á morgun sýning franska listamannsins Francois Lelong, Hreindýradraugur. Lelong sýnir þar skúlptúra og teikningar sem birta fjarveru hreindýra á Norðurlandi, þar sem þau bjuggu áður en lifa nú í hugarheimi manna og einhvern hátt í náttúrunni.

Í Sláturhúsinu á Egilsstöðum opnar ljósmyndarinn Kox sýninguna „Filman er ekki dauð“ á sunnudag. Viðfangsefni sýningarinnar eru landslagsmyndir sem teknar hafa verið í vetur. Ljósmyndarinn fangar kyrrðina í landslaginu á Norður- og Austurlandi og býður áhorfandanum að njóta þess tímaleysis sem landslaginu fylgir.

Í Seyðisfjarðarkirkju verður sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir sett inn í embætti prófasts Austurlands við kvöldmessu á sunnudagskvöld. Sigríður Rún tekur við starfinu af sr. Davíð Baldurssyni sem gegnt hefur starfinu í 25 ár.

Klukkan fimm á sunnudag verður opin kristniboðssamvera og kynning í safnaðarheimili Egilsstaðakirkju. Gestir verða Sr. Greg Aikins og sr. Hjalti Jón Sverrisson.

Á vegum REKO Austurlands verður vöruafhending á Djúpavogi í versluninni Við Voginn frá klukkan 14-14:30. REKO nýtir Facebook til að tengja matvælaframleiðendur við kaupendur en pantanir berast í gegnum samfélagsmiðilinn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar