Allt gert upp nema skotgatið fær að halda sér

Völundarsmiður og óforbetranlegur áhugamaður um ökutæki frá því fyrir 1955. Er á síðustu fimmtán árum eða svo búinn að gera upp hátt í tug gamalla traktora, amerískar og þýskar glæsikerrur, nokkra hertrukka og vörubíla. Hann á sér nú þann draum heitastan að gera gamalt mótorhjól í stand. Það er NSU hjól, ´36 módel og vantar bara í það vélina.

gumar

 

Guðmar Ragnarsson, sem margir þekkja sem bóndann Adda á Hóli, flutti fyrir fáum misserum úr Hjaltastaðarþinghánni og settist að í snyrtilegu einbýli á Egilsstöðum með konu sinni. Hann segist annað hvort væri dauður eða lagstur í kör fyrir aldur fram, hefði hann ekki farið að gera upp bíla. Hann verði að hafa nóg fyrir stafni og það að gera upp veiti honum mikla ánægju. Fagurt vitni þessa bera tveir aldnir en alveg stórglæsilegir traktorar í túninu utan við húsið hans á Brávöllunum, annar rauður og hinn grár, annar þýskur Farmall D217 og hinn Ferguson. Það vantar að vísu orginal stýri og ljósalugtir á þann rauða, en Guðmar segist muni bæta úr því bráðlega. ,,Hann er miklu fínni núna en hann var nýr! Varahlutirnir eru á leiðinni að utan, að vísu af Deutch, en þeir voru alveg eins.“gumar

 Traktora-stofustáss 

Í safninu hans eru til dæmis Farmall A og Farmall Cup og margir fleiri traktorar. Cadillac, kanadískur Chevrolet trukkur frá ´22 sem var grafinn upp úr drullupytt og snerist ekkert hjól á honum þá. Hertrukkar frá norska hernum, einn GMC ´43, Dodge ´41 og Dodge Vibon með tveimur hásingum að aftan. Svarti kaddinn, ´45 módel,  sem var í kvikmyndinni 79 af stöðinni og viftureimin slitnaði í hjá Kristbjörgu Kjeld. Hann er langbesti bíll sem Guðmar hefur nokkurn tímann sest í og tæknilega fullkomnastur miðað við smíðatíma.

Flestir eru í geymslu á Hóli, þar sem þeir hafa verið gerðir upp og færðir út til sýnis á góðviðrisdögum. Aðrir eru á Egilsstöðum, við Minjasafn Austurlands, í bílastæðinu eða í skemmu úti í bæ til yfirhalningar. Tveir eðalgripir, International traktorar, eru líka hjá Landgræðslu ríkisins í Gunnarsholti (inni í stofu!) og einn forláta himinblár vörubíll á Húsavík, Chevrolet ´46, hjá manni sem er viðlíka forfallinn fyrir rosknum ökutækjum.gumar

 Allt undir 

Þegar Guðmar hefur góðfúslega sýnt magnað myndasafn af tækjunum sínum, er strikið tekið í skemmuna til að skoða amerískan hertrukk sem fékkst í Kaliforníu og var fluttur inn af Shop USA. Ekki fyrsta eintakið sem Guðmar fær með þeim hætti inn fyrir landsteina. Hann hefur til dæmis keypt bíl á e-Bay uppboðsvefnum.

Hann strýkur varfærnislega yfir dökkt lakkið á gamla ´41 Dodginum og segist vera orðinn nokkuð sleipur í sprautuninni. Trukkurinn er næstum tilbúinn og það er eiginlega búið að skipta um allt í honum nema boddíið og rúðuþurrkurnar. Svakalega flottur. Og svo er djúp dæld eftir byssuskot fyrir ofan rúðuna farþegamegin. Guðmar segist ekki hafa tímt að laga það. ,,Hann var örugglega í stríðinu þessi“ segir hann og bendir á hitt og annað sem gjörv hönd hefur verið lögð að. Lára klæðskeri Elísdóttir á Egilsstöðum á eftir að sauma svolítið fyrir hann, hún á sinn þátt í endurnýjun bílanna hans Guðmars. Hann smíðaði ný aur- og stigbretti og á svolítið eftir að laga aftan á pallinum. Og viti menn, aftan á pallhleranum eru boldangsverkfæri; skófla, haki og exi. Gott í viðlögum. Trukkurinn er á 750 “16 dekkjum. Þau virka mjó undir svona stóran trukk, en Guðmar segir hann láta betur að stjórn á þeim.gumar

 Cadilakkinn bestur 

,,Það þýðir ekkert annað en að eiga öll tæki sjálfur sem þarf við þetta. Nei, ég á nú ekki rennibekk, en flest annað. Þetta kostar auðvitað eitthvað aðeins, en hvað um það? Það skiptir miklu máli að gera tækin alveg nákvæmlega upp, fá passandi, orginal varahluti. Svo smíða ég dálítið sjálfur ef ég fæ ekki það sem mig vantar Þetta verður að vera gert í alvöru. Ég leita víða fanga, en það er best að fá í þessa amerísku og verst að fá í þá þýsku eins og Farmallinn.“

,,Best smíðaði bíll sem ég hef fengið í hendurnar er Cadillakkinn, hann ber algjörlega af smíði frá þeim tíma. Chevrolettinn og GMC eru líka góðir. Ég hef engan áhuga á nýjum bílum nema sem tækjum til að ferðast á. Það er ekki fyrr en komið er niður fyrir ´55 að ég byrja að fá áhuga.“ Heimilisbíllinn hans er á númeraplötunum ,,ADDI R“ sem Sigga dóttir hans færði honum á sjötugsafmælinu fyrir skemmstu.

Öll uppgerðu ökutækin hans Guðmars eru í ökuhæfu ástandi. ,,En maður fer ekki út með þetta nema í góðu veðri. Og strýkur svo af þeim rykið áður en þeir fara inn aftur. Það var einn í hlaðinu hjá mér í nokkrar vikur. Ég þurrkaði af honum daglega.“gumar

 Vantar sýningaraðstöðu 

Margir hafa lagt lykkju á leið sína til að skoða bílana á Hóli. Bæði ferðamenn og áhugamenn um fornbíla. Það er synd og skömm að ekki skuli vera til sýningaraðstaða innan dyra fyrir bílana. ,,Okkur vantar heilt flugskýli til að geta sýnt allt það sem búið er að gera upp hér. Sigurður Jónsson stöðvarstjóri í Lagarfossi á þrjá trukka og nokkra traktora og það væri akkur í því að setja söfnin okkar saman. Sveitarfélagið hefur ekki viljað hjálpa upp á þetta, en Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands, hefur verið að reyna að útvega einhvern styrk til að byggja yfir þetta eða til að laga aðstöðuna á Hóli. En núna eru víst ekki til neinir peningar í svona. Ég hef þó haft augastað á húsinu á vegamótum Seyðisfjarðarvegar og vegarins á Fagradal. Það stendur ónotað og væri fínt sem sýningarstaður meðan ekkert annað er þar. Varla myndi það skemmast þó nokkrum bílum væri keyrt þar inn. En bankinn vill það ekki, svo líklega nær það ekki lengra.“

gumar

 

Myndir:SÁ

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.