Ágústnótt varð að jólanótt

Lag Egilsstaðabúans Valgeirs Skúlasonar keppir nú við sjö önnur um hylli landsmanna í jólalagasamkeppni Rásar tvö. Valgeir segir vera ánægjulega tilfinningu að heyra lagið spilað í útvarpinu. Annað lag er í keppninni sem á rætur sínar að rekja til Austurlands.

„Ég var búinn að gera lagið en vantaði textann. Ég var með ágústnótt í huga en þegar ég heyrði auglýsinguna frá Rás tvö þá fékk ég jólanótt í hausinn í staðinn og þá varð textinn til,“ segir Valgeir.

Valgeir, sem uppalinn er á Borgarfirði eystra, fékk fyrrverandi sveitunga sinn Magna Ásgeirsson til að syngja lagið og Ármann Einarsson, fyrrum tónlistarkennara í Fellabæ, til að útsetja það og spila. Þegar þeir höfðu farið höndum um lagið var það tilbúið fyrir keppnina.

Á Rás 2 var síðan valið úr innsendum lögum þannig að átta lög urðu eftir. „Ég var í vinnunni og nýkominn inn í bíl til að fara að keyra á næsta stað þegar lagið mitt ómaði allt í einu í útvarpinu. Ég fékk mikinn hjartakipp því það var mjög sérstök og gleðileg tilfinning,“ segir Valgeir.

Kosningunni lýkur á hádegi á morgun og úrslitin verða kunngjörð á föstudag. Valgeir kveðst hafa fengið töluverð viðbrögð við laginu síðan það fór í spilun í samkeppninni.

Valgeir hefur fengist við tónlist æði lengi og að eigin sögn samið lög frá því hann var um fermingu. Þekktast þeirra er trúlega Stúlkan við ströndina með hljómsveitinni Austurland að Glettingi þar sem Valgeir var trymbill. „Ég á töluvert af lögum og stefni jafnvel að útgáfu á næsta ári,“ segir Valgeir.

Í keppninni er einnig lag eftir Pál Ivan frá Eiðum sem ber heitið „Ég lofa að vera góður næst.“ Það lag er öllu óhefðbundnara en lag Valgeirs. Páll Ivan hefur áður átt lag í samkeppninni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.