Ætluðu eiginlega að setjast að vestur á fjörðum

Karlsstaðir í Berufirði voru ekki fyrsta val þeirra Svavars Péturs Eysteinssonar og Berglindar Häsler þegar þau ákváðu að leita sér að jörð til ræktunar. Heimsókn í Berufjörð í janúar heillaði þau hins vegar svo að ekki varð aftur snúið.


„„Karlsstaðirnir höfðu verið á sölu í nokkurn tíma. Móðir mín er fædd og uppalin á næsta bæ, Berunesi. Þar var ég í sveit í mörg sumur hjá afa og ömmu og móðurbróðir minn, Sigurður Hjaltason, býr þar enn. Ég á sterkar rætur hér.

Samt sem áður þá skautuðum við alltaf yfir Karlsstaðina þegar við vorum að skoða fasteignaauglýsingar. Mér fannst ég vera búinn með þennan kafla, að búa í Berufirðinum. Mig langaði að prófa eitthvað annað. En það þýðir víst ekki að berjast á móti því sem forsjónin ætlar manni,“ segir Svavar Pétur í viðtali við vikublaðið Austurgluggann.

Svavar Pétur og Berglind eru bæði uppalin í Reykjavík en kynntust Austfjörðum fyrir áratug þegar Berglind réði sig til starfa hjá svæðisútvarpi RÚV. Þau fluttu þá á Seyðisfjörð og líkaði vistin vel.

Draumurinn um gúmmískó

Þau fluttu aftur til baka í borgina og ráku þar meðal annars litla plötubúð og gallerí undir merkjum Havarís. Landsbyggðin togaði hins vegar alltaf í þau.

„Þetta var mjög skemmtilegt dæmi en hátt íbúðaverð í höfuðborginni og draumurinn um gúmmískó og meira sjálfstæði sótti á okkur.

Við leituðum æ meira út fyrir borgina og á ferðalögum okkar vorum við sífellt að horfa eftir heppilegum stað fyrir draumaverkefnið okkar. Þegar við svo misstum húsnæðið undan plötubúðinni rúllaði boltinn af stað.“

Jörðin þakin glitrandi perlum

Úr varð að þau fluttu vestur á Drangsnes og voru þar veturinn 2013-14. Þau höfðu hug á að setjast þar að en fengu ekki að kaupa bæinn. Þau voru að leita fyrir sér og forlögin ráku þau austur í Berufjörð í janúar 2014.

„Einn góðan veðurdag í janúar, þegar við bjuggum á Drangsnesinu, datt okkur í hug að keyra austur í Berufjörð og skoða Karlsstaðina. Bara sí svona! Það var rigningartíð sem gerði skammdegið ennþá drungalegra.

En daginn sem við komum í Berufjörðinn létti til, sólin gægðist fram og jörðin var eins og þakin glitrandi perlum. Þetta var mjög fallegt og átti örugglega sinn þátt í hve okkur leist vel á staðinn. Við keyptum jörðina og fluttum hingað vorið 2014 með börnin okkar þrjú.“

Bændurnir voru ekki bjartsýnir

Að Karlsstöðum hafa þau síðan byggt upp ferðaþjónustu, matsölustað, tónleikasal og lífrænt bú. Þau segja nágrannana ekki hafa verið bjartsýna fyrir þeirra hönd.

„Bændurnir hér í kring voru ekki bjartsýnir á að búskapur á Karlsstöðum næði fótfestu aftur. Jörðin hafði gengið kaupum og sölum og meðal annars voru einhverjir sem reyndu fyrir sér með kannabisræktun, sem frægt varð. Það hvíldi því skuggi yfir bænum, alla vega í huga nágrannanna.

En við létum það ekki á okkur fá og núna held ég að fólkið hér í kring sé bara nokkuð ánægt með það sem við erum að gera,“ segir Svavar Pétur.

Karlsstaðir hafa reynst þeim mun betri bújörð en þau bjuggust við. „Hér er gott ræktunarland og í fjörunni er friðað æðarvarp, sem við nýtum. Það fylgdu fimmtíu ær með í kaupunum. Svo má líka telja það til hlunninda að sólargangur hér á Karlsstöðum er langur. Lega jarðarinnar er þannig að við sjáum sólina rísa úr hafi og setjast í hafið allt árið, sem er mjög gott,“ segir Svavar Pétur og brosir breitt.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar