Ábyrgð listamanna að halda gömlum perlum á lofti

Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir koma fram á fernum tónleikum á Austurlandi um helgina á árlegu tónleikaferðalagi sínu um landið. Efnisskráin inniheldur bæði íslenskar söngperlur og Abba-lög og spilað er bæði í félagsheimilum og heimahúsum.

„Við Kristjana erum búin að spila saman í meira en áratug. Við sníðum efnisskránna að hvernig okkur líður þann daginn og hvernig stemmingin er meðal áhorfenda,“ segir Svavar Knútur.

„Við erum alltaf með ákveðnar gamlar íslenskar söngperlur en svo þjáumst við af ást á Abba og níunda áratugnum. Við leggjum líka upp með að finna perlur sem okkur finnst ekki hafa notið athygli síðustu ár.

Útvarpið er bara með takmarkaðan dagskrártíma en það bætast alltaf við ný lög. Á okkur sem flytjum lifandi tónlist er ábyrgð að halda minningum laga á lofti þannig þau fái að fljúga,“ bætir Svavar Knútur við.

Fyrstu tónleikarnir verða á Tehúsinu á Egilsstöðum í kvöld, síðan spila þau á stofutónleikum að Vesturvegi 8 á Seyðisfirði í hádeginu á morgun. „Kristjana var að vinna á Seyðisfirði og á þar marga góða vini. Fyrir þá ákváðum við að skella í eina góða tónleika þangað sem allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir.

Það myndast öðruvísi orka á slíkum tónleikum. Það verður annað flæði milli okkar og áhorfenda sem kallar á allt aðra túlkun á lögunum. Þar af leiðandi gætum við tekið einhverjar U-beygjur í lagavali, sögum eða spjalli.“

Annað kvöld koma þau fram í Fjarðarborg á Borgarfirði og síðan Löngubúð á Djúpavogi á sunnudag. „Á Borgarfirði kem ég fram í bæ ömmu minnar hjá frændum mínum. Öll móðurættin mín, aftur fyrir kristnitöku er að austan. Hún fór ekki norðar en að Möðrudal og sunnar en Djúpavog. Föðurafi minn er síðan frá Djúpavogi,“ segir Svavar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar