Það verður enn fréttnæmara ef önd gengur yfir götu í Reykjavík

Björn Hafþór Guðmundsson, formaður Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) segir það „sorgarfrétt“ að til standi að leggja af útsendingar svæðisútvarpsins á Egilsstöðum. Þetta sé enn eitt dæmið um að niðurskurð opinberra stofnana sem komi hvað harðast niður á landsbyggðinni.

 

bjorn_hafthor.png„Þetta virðast happaglappaaðgerðir. Það er nýbúið að sameina stöðina hér og á Norðurlandi. Ákvarðanir virðast illa ígrundaðar og bera vott um ómarkvissa stjórnun,“ sagði Björn Hafþór í samtali við agl.is í dag.

Þrjátíu föstum starfsmönnum Ríkisútvarpsins var í dag sagt upp störfum en stofnunin þarf að skera niður um tæpar 300 milljónir á ársgrundvelli. Eins og agl.is greindi frá í morgun var þremur starfsmönnum sagt upp á Egilsstöðum, útsendingum svæðisútvarpsins verður hætt og húsnæðið selt.

„Sýnileiki þess jákvæða starfs sem við erum að vinna hér eystra minnkar. Það verður enn fréttnæmara ef önd gengur yfir götu í Reykjavík. Við erum hér að tala um stofnun sem hefur leyft sér að kalla sig útvarp allra landsmanna. Ég held að hún beri það nafn ekki með réttu eftir þessa aðgerð,“ segir Björn Hafþór.

Hann lítur á niðurskurð RÚV sem enn eitt dæmið um að gengið sé á opinber störf á landsbyggðinni. „Þvert ofan í fyrirheit er sífellt verið að fækka opinberum störfum á landsbyggðinni. Öll fækkun virðist vera þar. Það hefur verið bent á að störfum hafi fjölgað hjá sveitarfélögunum en á herðar þeirra hafa verið lagðar auknar skyldur og því þau þurft að fjölga starfsmönnum. Við höfum tölur um að raunfækkun opinberra starfa er til staðar úti á landi.

Björn Hafþór á ekki von á að Austfirðingar taki lokuninni þegjandi. „Ég hef fulla trú á að sveitarfélögin og SSA láti heyra í sér. Sem borgarar getum við lýst óánægju okkar með ákvörðun stofnunarinnar. Ég dreg stjórnvöld til ábyrgðar í þessum málum og þar munum við væntanlega beita okkur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.