„Það veitir ekki af smá hlátri í skammdeginu“: Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir farsa í kvöld

 Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir í kvöld gamanleikritið Einn koss enn og ég segi ekki orð við Jónatan eftir Marc Camoletti sem samdi til að mynda leikritið Sex í sveit. Leikstjórar verksins segjast sjaldan hafa unnið með jafn hláturmildum hópi leikhúsfólks.  

Verkið er léttur farsi sem segir frá erkipiparsveininum Jónatani. Hann á þrjár konur sem allar eru flugfreyjur og vita þær ekki hvor af annarri. Allt gengur þetta vel þar til flugfélögin fá nýjar, hljóðfráar þotur sem eru mikið fljótari í förum, en þá riðlast allt skipulag í lífi Jónatans.

Ekki bætir úr skák að félagi Jónatans, kvennabósinn og piparsveinninn Róbert, kemur í heimsókn. Þegar svo er komið þarf Jónatan meir en nokkru sinni á snilli ráðskonu sinnar að halda. Hver atburðurinn rekur annan og jafnt og þétt magnast ringulreiðin í lífi Jónatans.

Einar Rafn Haraldsson og Freyja Kristjánsdóttir leikstýra sýningunni en þau eru hlaðin reynslu úr leikhúsheiminum. Þetta er ellefta verkið sem Einar Rafn leikstýrir hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs, en frumraun Freyju sem leikstjóra hjá félaginu. Hún hefur þó leikstýrt verkum hjá öðrum leikfélögum og var tónlistarstjóri bæði í uppfærslu LF af Saumastofunni (2009) og Bugsy Malone (2004).

Karlahallæri stýrði vali á verki

Aðspurð að því hvernig verkið hafi verið valið segir Freyja: „Upphaflega var ætlunin að setja upp tvo einþáttunga, en vegna karlahallæris var hætt við það. Við vorum að falla á tíma og ákvað stjórnin því að skipta út leikritum, og valdi þá þetta verk. Sennilega hefur ákvörðunin afmarkast af gleðinni sem fylgir því að setja upp farsa. Það veitir ekki af smá hlátri í skammdeginu“.

Æfingar á hinum upphaflegu einþáttungum hófust í byrjun október. Frumsýning tafðist síðan um viku vegna húsnæðisvandræða en hópurinn komst ekki fyrr inn í Valaskjálf til að æfa á endanlegu sviði. Allt í allt hafa æfingar þó staðið yfir í um sjö vikur.

„Þetta er einn sá hláturmildasti hópur sem ég hef unnið með,“ segir Einar Rafn. „Í byrjun æfingartímabils voru stuttar æfingar á hverju kvöldi, en lengdust eftir því sem nær dró frumsýningu. En þetta hefur gengið vel og verið ofboðslega skemmtilegt tímabil.“

„Einar leyfir mér að ráða“

Samstarfið hjá Einari og Freyju hefur gengið vel, og segjast þau í raun aldrei deila um neitt þrátt fyrir að hafa stundum mismunandi skoðanir á hlutunum. „Það hefur komið í ljós að við höfum svipað ímyndunarafl og hugsun um það sem þarf að gera,“ segir Freyja.

„Í þau skipti sem ég hef sterkar skoðanir á einhverju er Einar svo mikill herramaður að hann leyfir mér að ráða. Sannleikurinn er sá að hugmyndir okkar um farsa eru mjög svipaðar. Í raun höfum við bara einu sinni á leiktímabilinu virkilega verið ósammála en það var ákvörðun um hvort ætti að nota karlmannsnærbuxur eða kvenmannsnærbuxur í einni senunni.“

Þó leikararnir séu aðeins sex talsins er stór hópur sem kemur að sýningunni, eða um það bil tuttugu manns. Þá má ekki gleyma að nefna Sigurgeir Bjarka Söruson, þriggja ára trítil, sem hefur stundum verið nefndur „lukkudýr leikfélagsins“. Hópurinn samanstendur að mestu leiti af óreyndum leikurum, en samkvæmt leikstjórum hafa allir staðið undir væntingum og vel það.

Ekki auðveldara að leika farsa

„Það er algengur misskilningur að það sé auðveldara að leika farsa en alvarleg hlutverk,“ segir Einar Rafn. „Það reynir mikið á samvinnu og tímasetningar. Í svona hröðum farsa verða allir að vera í takti og gefa sig í þetta. Það er ekki pláss fyrir sólóista í leikritinu. Allir skipta máli sem hópur. Þetta er vél sem verður að snúast mjög hratt því takturinn skiptir öllu máli.“

„Skrítið að vera að láta þetta frá sér,“ segir Freyja. „Það er alltaf svolítil tómleikatilfinning þegar æfingatímabilinu lýkur. En á sama tíma svo rosalega mikil gleði. Í raun mjög blendnar tilfinningar.“

Frumsýningin er í kvöld og hefst klukkan 20:30. Nánari upplýsingar um sýningar eru á Facebook síðu Leikfélags Fljótsdalshéraðs.
http://www.facebook.com/event.php?eid=144331415614861&index=1

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.