„Sjósund sýnir fram á að maður getur allt“

Dagný Sylvía Sævarsdóttir, einn af lokaorðapennum Austurgluggans, tók þátt í árlegu áramótasundi í Sønderborg á Suður-Jótlandi, þar sem hún er búsett.

Hefð hefur skapast fyrir áramótasundi hjá Íslendingum búsettum í Sønderborg, sem hefur verið árviss viðburður síðan 1999, en upphafsmaður þess og skipuleggjandi er Fylkir Sævarsson.

„Við syndum í sjónum út frá svörtu ströndinni í Sønderborg, sem er vinsæl strönd á sumrin fyrir fjölskyldufólk. Í fyrra var kynjaskiptingin jöfn en í ár tókst konunum að mynda meirihluta í fyrsta skipti. Sú staðreynd er einnig skemmtileg að 33% þátttakenda komu frá Austurlandi, ég sjálf frá Eiðaþinghá og Berglind Knútsdóttir frá Seyðisfirði.

Fylkir og sonur hans, Sævar Patrekur, syntu að venju 200 metra, á meðan við konurnar létum okkur nægja að fylgja þeim áleiðis, þar sem við erum ekki vanar svo langri veru í köldu vatninu. Fylkir er hinsvegar þaulvanur og var meðal annars fyrstur manna til að synda yfir Þingvallavatn,“ segir Dagný.

Snýst um viljastyrk

Dagný hefur stundað sjósund í ár. „Mér finnst þetta alveg rosalega hressandi, félagsskapurinn er góður og svo förum við í sauna á eftir og það lokkar vissulega.

Sjórinn er auðvitað ískaldur og það þarf vissan viljastyrk til þess að vaða út í og byrja að synda án þess að hika og njóta þess, þetta snýst um að yfirstíga eitthvað.

Veðrið lék við okkur þennan fyrsta dag ársins, lofthitinn var um sjö gráður, nánast logn og sólargeislarnir reyndu að brjóta sér leið í gegnum þokumistrið sem gerði það að verkum að það var nánast bara notalegt að koma upp úr fimm gráðu heitum sjónum – beint í myndatökur og „viðtöl“ á hinum ýmsu nútímasamskiptamiðlum.

Það er frábært að byrja og enda árið á að synda í ísköldum sjó en það sýnir fram á að maður getur allt!“

Engin sundföt í Vikingeklubben

Dagný hefur verið meðlimur í Vikingeklubben í hálft ár en það er sjóbaðaklúbburinn í Sønderborg.

„Eftir sundið fórum við í heitt og gott sauna í Vikingeklubben en við konurnar erum allar meðlimir í honum og þar er öll aðstaða til fyrirmyndar. Við gátum ekki stillt okkur um að bæta tveimur stuttum sundsprettum við þar enda fátt meira hressandi en kaldur sjórinn um hávetur. Það gátum við hinsvegar ekki fest á filmu því myndatökur í Vikingeklúbbnum eru með öllu bannaðar þar sem sundföt þykja óþörf innan veggja hans.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar