Víkingur Heiðar: Flygillinn á Eskifirði jafn góður og í Hörpu

Víkingur Heiðar Eskifjörður

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson lofaði hljóðfærið sem hann fékk í hendurnar á tónleikum sínum í Kirkju- og menningarmiðstöðinni á Eskifirði á laugardag í hástert og sagði hann jafnast á við það besta sem fyndist á landinu. Yfirskrift tónleikanna var „Önnur hugmynd um Norðrið” til minningar um kanadíska píanóleikarann Glenn Gould.

Rúmlega 50 manns á öllum aldri mættu á tónleikana til að njóta tónlistarinnar. Víkingur Heiðar sýndi listir sínar við flygilinn og spilaði hann Partítur eftir Bach og verk eftir Brahms, Grieg, Sibelius. Tónleikunum lauk hann á lokasenunni úr óperunni Tristan og Ísold eftir Wagner. 

Á milli verka voru spilaðar upptökur með Glenn Gould sjálfum, þar var hann m.a. syngjandi, í viðtölum og fleira. Eftir glæsilega tónleika tók hann tvö uppklappslög, Ave Maria og gamalt íslenskt þjóðlag og ekki voru þau síðri en hin.

Víkingur endaði svo á því að lofa flygilinn og sagði það mikinn heiður að fá að spila á hann, hann sagði hann vera einn af þeim bestu á landinu og líkti gæðunum við hljóðfærin í Hörpu.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.