Friðþór og Sigurður Austfirðingar ársins: Mjög þakklátir fyrir þennan heiður

austfirdingar arsins 2013 0013 webFeðgarnir Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson eru Austfirðingar ársins 2013 að mati lesenda Austurfréttar. Þeir björguðu sjö manna fjölskyldu út úr brennandi húsi í Berufirði í byrjun nóvembermánaðar.

„Við erum mjög þakklátir fyrir þennan heiður. Við getum ekki sagt annað en viðurkenningin komi okkur á óvart," segja þeir.

Þeir fengu viðurkenningar frá Austurfrétt og gjafabréf í gistingu og mat frá Gistihúsinu á Egilsstöðum afhent á Breiðdalsvík á föstudag.

Friðþór og Sigurður búa á Höfn en gera út frá Breiðdalsvík. Þaðan voru þeir á leið heim þegar þeir tóku eftir undarlegu ljósi utan á bænum Hamraborg í Berufirði. Þegar þeir rýndu betur í kom í ljós að þar logaði eldur.

Þeir hringdu á Neyðarlínuna en fóru næst inn og vöktu sjö manna fjölskyldu sem svaf þar vært og komu henni út. Þeir hjálpuðu einnig húsbóndanum við að halda eldinum niðri þar til slökkvilið kom á staðinn.

Feðgarnir fengu 30,3% þeirra 1495 atkvæða sem greidd voru í kjörinu. Í öðru sæti urðu austfirsku björgunarsveitirnar með 19,5% og Björg Sigfinnsdóttir, aðalsprauta LungA-skólans á Seyðisfirði í því þriðja með 11,7%. Alls bárust átta mismunandi tilnefningar í kjörið og var kosið á milli þeirra.

Þetta er í annað sinn sem Austurfrétt stendur fyrir valinu á Austfirðingi ársins en í fyrra varð Árni Þorsteinsson fyrir valinu. Hann sagði frá björgun sinni úr snjóflóðunum á Norðfirði í Útkallsbók Óttars Sveinssonar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.