Yngri, kraftmeiri og fjölbreyttari Vopnafjörður

Veljum Vopnafjörð er verkefni þar sem Vopnafjarðarhreppur og íbúar taka höndum saman um að virkja þann kraft sem býr í Vopnfirðingum, til að efla byggð til framtíðar. Kjörorð verkefnisins eru: YNGRI Vopnafjörður! KRAFTMEIRI Vopnafjörður! FJÖLBREYTTARI Vopnafjörður! Í merki verkefnisins eru þrjár stjörnur, sem tákna þessi þrjú orð. Auk þess er lögð áhersla á jákvætt hugarfar.


Verkefnið byggir á niðurstöðum íbúaþings sem haldið var í apríl. Þar töldu þátttakendur mikilvægast að stuðlað verði að fjölgun ungs fólks á aldrinum 20 – 40 ára. Þingið markaði upphaf verkefnisins, sem mun standa í eitt ár, til vors 2017.

Eftir íbúaþingið vann verkefnisstjórn úr hugmyndum og síðan var blásið til íbúafundar í júní síðastliðnum. Á fundinum brugðust verkefnisstjórn og frumkvöðlar við skilaboðum íbúaþingsins.

Vopnafjarðarhreppur hefur gert samning um fjárframlag til Minjasafnsins Bustarfelli, til næstu fjögurra ára. Unnið hefur verið að endurbótum í Sundabúð, sett á fót fagráð og ráðinn tómstundafulltrúi. Haldið verður opið hús í haust og sú hugmynd frá íbúaþingi um að gera þjónustukönnun meðal eldri borgara verður skoðuð.

Skógræktarfélagið Landbók, með Ingólf Sveinsson í broddi fylkingar, vinnur að gerð göngustíga með stuðningi Vopnafjarðarhrepps. Á íbúaþinginu kom fram áhugi á að efla skógræktarfélagið.

Bygging sundlaugar á Vopnafirði er á þriggja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins. Sveitarstjórn hefur sent viljayfirlýsingu til stjórnvalda um hreindýraeldi, en verkefnið er leitt af frumkvöðlum.

Vinnuskólinn verður efldur, Ferðamálastefna Vopnafjarðar er í vinnslu og verður kynnt í haust, ásamt verkefninu Áfangastaðurinn Austurland. Þá er spurning hvort þau félagasamtök og einstaklingar sem tengjast menningu og sögu Vopnafjarðar hafa áhuga á að auka samstarf til að auka möguleika á styrkjum. Von er á listamanni frá Vesterålen í Noregi til dvalar á Vopnafirði í haust.

Rætt hefur verið við Afl starfsgreinafélag um samstarf vegna íbúðar og skrifstofuhótels. Frumkvöðlar vinna að ýmsum hugmyndum, t.d. um stofnun míkróbrugghúss og bars og skipulagningu á krefjandi ratleik fyrir innlenda og erlenda ofurhuga. Til að auka stuðning við frumkvöðla verður haldið námskeið um stofnun fyrirtækja og hægt er að leita til Austurbrúar, Nýsköpunarmiðstöðvar og Vopnafjarðarhrepps.

Að líkindum eiga fleiri verkefni eftir að líta dagsins ljós í framhaldinu, en verkefnisstjórn er í ráðgefandi hlutverki gagnvart sveitarstjórn, sem mun skoða hugmyndir íbúaþingsins þegar hún hefst handa við gerð fjárhagsáætlunar í haust.

Eftir íbúaþingið hefur þegar farið heilmikil hreyfing og gerjun af stað á Vopnafirði. Það er Vopnafjarðarhreppur sem stendur að verkefninu í samstarfi við íbúa og með stuðningi Byggðastofnunar og Austurbrúar. Verkefnisstjórn, skipuð fulltrúum þessara aðila leiðir starfið. Sveitarstjóri og ráðgjafi frá ILDI, vinna með verkefnisstjórninni.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.