Vopnaskak hafið: Skreytingaæði runnið á Vopnfirðinga

Skreytingaæði virðist runnið á íbúa á Vopnafirði í tengslum við bæjarhátíðina Vopnaskak sem haldin verður um helgina. Samkeppni er um flottustu skreytingarnar.


„Fólk hefur komið saman í hverfunum á hverju kvöldi í vikunni til að gera sér glaðan dag og skreyta,“ segir Berghildur Fanney Hauksdóttir, ferða- og menningarfulltrúi Vopnafjarðarhrepps.

Sveitarfélaginu er skipt upp í fjögur hverfi og eru verðlaun veitt því hverfi sem best er skreytt. Eins er verðlaunað fyrir flottustu fígúruna við hús. Úrslitin eru tilkynnt á markaðsdegi á laugardag.

„Keppnisskapið er svo mikið að okkur nánast óar við því. Þetta hefur verið svakaleg skreytingastemming en við náum markmiðinu um að fólkið hópist saman á eigin forsendum.“

Hátíðin hófst í gærkvöldi með opnun tveggja listsýninga, barsvari og miðnæturopnun í Selárdalslaug. Í kvöld verður hagyrðingakvöld í Miklagarði, annað kvöld tónleikar þar með Todmobile.

Á laugardagskvöld opna sex vopnfirsk heimili sín og bjóða í súpu áður en Hofsball hefst. Það var endurvakið í fyrra við miklar vinsældir. Á sunnudag er Bustarfellsdagurinn en 50 ár eru liðin síðan síðast var búið þar.

Hátíðin er nú haldin viku fyrr en síðustu ár. Fanney segir hátíðinni hafa verið flýtt til að vera á undan makrílvertíðinni hjá HB Granda, stærsta atvinnuveitanda bæjarins. Bæði skip félagsins eru á veiðum og gætu landað á Vopnafirði um helgina.

Fjölbreyttir listviðburðir eru í gangi alla helgina. Vopnfirðingurinn Olga Helgadóttir sýnir útskriftarverkefni sitt í ljósmyndun í safnaðarheimili Vopnafjarðarkirkju en þar er um áhrifamikla sýningu að ræða.

Hátíðinni lýkur á tónleikum fiðluleikarans Evu Mjalla Ingólfsdóttur sem hefur heimilisfesti í New York. Hún flytur þar meðal annars verk sem tengist Djúpavogi en hún vinnur að verki sem tengist Vopnafirði. Tónleikarnir verða í kjölfar leiks Íslendinga og Frakka.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.