Vopnafjörður: Bolfiskvinnsla gæti byrjað í nóvember

Vinnsla í nýrri bolfiskvinnslu á Vopnafirði gæti hafist í nóvember. Framkvæmdum við hana miðar vel.


Þetta kemur fram í frétt á vef HB Granda í dag. Vinnslan verður til húsa þar sem Tangi hf. starfrækti áður frystihús. Flatarmál vinnslusalarins er um 500 fermetrar og munu 35-40 manns vinna við bolfiskvinnsluna.

Von er á frystivélum um mánaðarmótin og loftræstisamstæði. Annar búnaður er á áætlun. Klára þarf vinnslusalinn áður en hægt er að koma fiskvinnslubúnaðinum fyrir.

Það er Mælifell ehf., trésmiðja á Vopnafirði sem hefur haft veg og vanda af því að breyta húsakynnum gamla frystihússins þannig að þau henti nýrri bolfiskvinnslu HB Granda.

Tilkynnt var um bolfiskvinnsluna í byrjun árs en henni er meðal annars ætlað að skjóta styrkari stoðum undir atvinnustarfsemi á Vopnafirði með að jafna út sveiflur í uppsjávarvinnslu sem hefur verið uppistaðan. Almennt hefur verið búist við að fullur kraftur færi í nýju vinnsluna eftir áramót.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar