Vopnafjarðarhreppur vill greiða 44 milljónir af lífeyrissjóðsskuld

Sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps samþykkti á fundi sínum í gær að greiða rúmar 44 miljónir króna af skuld við Lífeyrissjóðinn Stapa vegna vangoldinna lífeyrisgreiðslna á árunum 2005-216. Meirihlutinn taldi niðurstöðuna sanngjarna í ljósi málavaxta og stöðu sveitarsjóðs en minnihlutinn vildi greiða kröfuna alla. Framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins segir að skoða þurfi áhrif sáttaboðsins á sjóðsfélaga áður en ákveðið verði hvort málinu verði haldið áfram.

Í samþykktinni frá í gær felst að hreppurinn greiði að fullu höfuðstól hinna vangoldnu greiðsla á tímabilinu auk vaxta á tímabilinu 2013-16, sem sé ófyrnt, alls tæpar 44,2 milljónir króna. Stapi hafði hins vegar farið fram á heildargreiðslur upp á 72 milljónir króna. Sveitarstjórn telur að með fjármagnskostnaði hefði heildarkostnaður sveitarfélagsins farið upp í 100 milljónir.

Málið kom upp árið 2017 þegar starfsmaður hreppsins benti á að hlutfall, sem miðað var við þegar upphæð lífeyrisgreiðslu var ákvörðuð, var of lágt. Þar með hafði safnast upp skuld frá árinu 2005 til ársins 2016.

Telja lífeyrissjóðinn líka bera ábyrgð

Í tilkynningu Vopnafjarðarhrepps segir að Stapi hafi tekið á móti skilagreinum athugasemdalaust og launafólk á móti of lágum lífeyrisgreiðslum án þess að hreyfa mótmælum. Sveitarfélagið telur lífeyrissjóðinn því jafnframt bera ábyrgð á mistökunum og þar með brugðist skyldum sínum um að standa vörð um hagsmuni sjóðsfélaga.

Uppsafnaður höfuðstóll kröfunnar er rúmlega 40 milljónir. Í tilkynningunni segir að lífeyrissjóðurinn hafi gert kröfu um ávöxtun sem hækki upphæðina í 72 milljónir. Við gætist að greiðslukjörin sem boðin hafi verið feli í sér fjármagnskostnað sem hækki upphæðina í rúmar 100 milljónir.

Ljóst sé að samkvæmt lögum sé stór hluti af svo gamalli skuld fyrndur. Áhöld séu uppi um hve mikið eigi að borga. Ekki liggi nákvæmlega fyrir hver ávöxtun greiðslnanna hefði verið væru þær réttar frá upphafi. Þess í stað miði sjóðurinn við almenna ávöxtunarkröfu sína, 3,5%.

Í tilkynningunni segir að með greiðslu höfuðstóls auk ófyrndra vaxta hafi sveitarfélagið staðið við greiðsluskyldur sínar á hverjum tíma. Lífeyrissjóðurinn verði að gera grein fyrir því sjálfur hvernig hann vilji gangast við ábyrgð sinin og tryggja ávöxtun greiðslnanna fram til ársins 2013.

Skerðing upp á 2300 krónur á mánuði

Meðalskerðing á lífeyrisréttindum vegna mistakanna eru nú þegar 2.300 krónur á mánuði fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga og ekki hafa hafið töku lífeyris. Sú upphæð miðast við stöðuna áður en sveitarfélagið sitt, um 2/3 hluta kröfunnar.

Í yfirlýsingu hreppsins er bent á að samspil við almannatryggingar vegi upp á móti sem leiði væntanlega til þess að skerðingin verði lítil sem engin hjá þeim sem hafið hafa töku lífeyris og minnst hafa á milli handanna.

Samkvæmt útreikningum sveitarfélagsins er ófyrnd upphæð skuldarinnar rúmlega 12 milljónir, sem er ófyrndur höfuðstóll á tímabilinu 2013-16 auk vaxta.

Telja fjárhagsstöðu hreppsins ekki leyfa hærri greiðslur

Í yfirlýsingunni segir að til að stjórnendum og ábyrgðaraðilum sveitarfélags sé fært að greiða kröfur, sem ganga umfram lagalegar skyldur, verði að vera fyrir því fjárhagslegt svigrúm og sérstök rök. Það eigi við í þessu máli eins og öllum öðrum. Ríkar skyldur hvíli á sveitarstjórnarfólki á að haga sínum fjármálum með ábyrgum hætti. Um það vitna sveitarstjórnarlög, lög um opinber fjármál og reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Í greinargerð hreppsnefndar frá í gær segir ennfremur að auk þessa alls sé ljóst að fjármagn til greiðslu skuldarinnar verði ekki til reiðu í önnur verkefni sveitarfélagsins og bitni þannig beint og óbeint á öllum íbúum þess. Þegar sé ljóst að rekstur hreppsins sé undir væntingum. Mestu muni um afskrift skuldar hjúkrunarheimilisins Sundabúðar upp á 130 milljónir og ofáætlana rekstrarafkomu ársins 2018 upp á 110 milljónir.

Því sé ljóst að það að greiða skuld höfuðstólsins auk ófyrndra vaxta sé sanngjarnt. Með því sé greitt töluvert umfram lagalega skyldu enda sé hreppnum annt um að koma á móts við starfsfólk sitt eins og hægt sé.

Minnihlutinn vildi greiða skuldina alla

Hreppsnefnd var ekki eindregin í afstöðu sinni þar sem fulltrúar minnihluta Samfylkingarinnar greiddu atkvæði gegn ákvörðuninni. Í bókun þeirra kemur fram að þeir vilji greiða skuldina alla frá 2005-16 auk raun ávöxtunar. Með því að greiða ekki alla skuldina séu launþegar sveitarfélagsins sviknir um lífeyrisréttindi sín. Ábyrgðin sé sveitarfélagsins og rétt og sanngjarnt að réttindi launþega séu ekki skert vegna mistaka þess.

Í gagnbókun meirihlutans er því hafnað að ábyrgðin liggi öll hjá sveitarfélaginu. Að öðru leyti er vísað til fyrri rökstuðnings um greiðslugetu og skyldur sem hvíli á sveitarstjórnarfólki um að haga fjármálastjórn með ábyrgum hætti. Meirihlutinn líti á það sem skyldu sína að standa vörð um hagsmuni allra Vopnfirðinga.

Stapi skoðar frekari viðbrögð

Í samtali við Austurfrétt sagði Jóhann Steinar Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stapa að beðið væri eftir upplýsingum um með hvaða hætti uppgjörið fari fram og hvaða áhrif það hafi. „Við höfum á þessari stundu ekki forsendur til að ákveða frekari aðgerðir. Við munum skoða stöðuna með hag sjóðsfélaga að leiðarljósi og bregðast við eins og okkur ber skylda til.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.