Vonast til að geta byrjað á viðbyggingu Dalborgar næsta vor

Stefnt er að því að hefja framkvæmdir við stækkun leikskólans Dalborgar á Eskifirði næsta vor. Tvær deildir bætast við skólann og rými starfsfólks verður bætt til muna.

Starfshópur um hönnun viðbyggingar skilaði nýverið af sér niðurstöðum sínum til bæjarráðs sem staðfesti tillögu hópsins um val á hönnun. Framundan er síðan að ljúka þeirri hönnun, til dæmis velja byggingarefni, en því á að vera lokið fyrir 1. ágúst.

Ákveðið hefur verið að byggja við núverandi leikskóla, sem tekinn var í notkun árið 1999, til austurs. Á Eskifirði eru í dag fjórar leikskóladeildir, en ein þeirra er í grunnskólanum þar sem leikskólinn er ekki nógu stór.

Hann rúmar í dag þrjár deildir en tvær bætast við með viðbyggingunni. Þá eykst pláss starfsmanna til muna. Bæði foreldrar á Eskifirði og starfsmenn hafa um langa hríð þrýst á um framkvæmdir við skólann sem er löngu sprunginn.

Karl Óttar Pétursson, bæjarstjóri, segir gert ráð fyrir að hægt verði að bjóða verkið út í vetur og hefja framkvæmdir næsta vor. Allar tímasetningar velti þó á því hvenær viðbyggingin verði fullhönnuð. Hún verður 450 fermetrar að stærð og kostar allt að 300 milljónir króna.

Framkvæmdir við leikskólann eru samkvæmt áætlun sem samþykkt var af fyrri bæjarstjórn um að fyrst yrði byggt við leikskólann á Reyðarfirði. Sú viðbygging var tekin í notkun í vor. Um tíma var óttast að það yrði ekki hægt þar sem starfsmenn vantaði en svo fór að manna tókst þær stöður sem þurftu í tæka tíð.

Á Reyðarfirði stendur einnig til að gera tengibyggingu milli leikskólans og félagsheimilisins Félagslundar sem hýsa muni sal fyrir skólann. Karl Óttar segir að líklega verði þeirri framkvæmd frestað til að fara megi af stað með vinnuna á Eskifirði. Endanleg ákvörðun um það verði tekin við gerð fjárhagsáætlunar næsta árs í haust.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.