Vitlaust gefið við sameiningu sýslumannsembætta

Ekki var nógu vel staðið að fjárhagslegum undirbúningi sameiningar embætta sýslumanna árið 2015 og launakostnaður gróflega vanmetinn. Þetta hefur meðal annars bitnað illa á sýslumanninum á Austurlandi þar sem eigið fé var neikvætt um 30 milljónir þremur árum eftir sameininguna.

Þetta er meðal þess sem fram kemur um stjórnsýsluúttekt sem Ríkisendurskoðun lauk nýverið við á sameiningu embættanna. Sameiningarnar gengu í gegn í ársbyrjun 2015 og var þeim þá fækkað úr 24 í 9. Áður voru tvö embætti á Austurlandi, á Eskifirði og Seyðisfirði, en urðu eftir þetta eitt með aðalskrifstofu á síðarnefnda staðnum. Úttektin hófst í desember 2017.

Helstu niðurstöðurnar eru þær að ekki hafi verið nægilega staðið að fjárhagslegum undirbúningi breytinganna. Ekki hafi verið gerð langtímaáætlun um rekstur og mat um skiptingu launa milli sýslumanna og lögreglu, sem voru aðskilin við breytingarnar, hafi verið ónákvæmt.

Vanmat á launakostnaði forstöðumanna eins og hann var úrskurðaður af kjararáði Hagræðingarkrafa upp á 56 milljónir var lögð á embættin þótt ljóst væri að ekki væri hægt að hagræða í rekstri nema með því að segja upp starfsfólki. Það var hins vegar óheimilt samkvæmt lögum.

Kostnaður við breytingarnar hafi verið vanáætlaður sem varð til þess að embættin þurftu að taka einskiptiskostnað af fjárheimildum sínum sínum. Markmið um hagræðingu en um leið eflingu embættanna hafi ekki náðst nema að litlu leyti.

Halli frá fyrsta degi

Útkoman úr þessu var að eigið fé sýslumannsembættanna var í árslok 2017 neikvætt um 307 milljónir. Þar var var eigið fé sýslumannsins á Austurlandi neikvætt um 31,5 milljón. Embættið þurfti að taka á sig mikinn kostnað við sameininguna og var rekstur þess neikvæður á sameiningar árinu um 30 milljónir.

Þótt reksturinn hafi batnað síðan er enn verulegur halli á embættinu og hefur verið frá fyrsta degi. Í byrjun árs samþykktu starfsmenn að lækka starfshlutfall sitt niður í 90% en útlit er fyrir þjónustuskerðingu, meðal annars með styttum opnunartíma.

Í athugasemdum frá sýslumanninum á Austurlandi í skýrslunni er lýst þeirri skoðun að embættið hafi í upphafi fengið minni fjárheimildir en embætti af sambærilegri stærð. Þá hafi huglægt mat starfsfólks við breytingarnar árið 2014 ekki verið í samræmi við endanlega skiptingu verkefna milli lögreglu og sýslumanna.

Fleiri stöðugildi fóru til sýslumanns en tilraunir til að að fá leiðréttingu á fjárheimildum gengu ekki eftir. Launakostnaður er almennt um 80% kostnaðar embættanna.

Hagrætt hefur verið með að ráða ekki í stað þeirra sem hætta. Stöðugildi í árslok 2017 voru 14,3 eða eitt stöðugildi fyrir hverja 737 íbúa sem er um miðbik í samanburðinum.

Rúmur helmingur ánægður með þjónustuna eystra

Í úttektinni er einnig farið yfir hversu vel embættunum gangi að sinna verkefnum sínum. Fram kemur að hjá embættinu eystra séu flest stöðugildi í stoðþjónustu þar sem verkefni fyrir hönd Tryggingastofnunar og Sjúkratrygginga Íslands eru fyrirferðamikil.

Erfitt reyndist að meta skilvirkni embættisins þar sem ekki var haldið formlegt verkbókhald. Hún virðist í meðallagi og að sögn sýslumanns gengur vel að afgreiða erindi og sinna verkefnum þess.

Í svörum sýslumannsins á Austurlandi kemur fram að hagrætt hafi verið innan embættisins við sameininguna með aukinni sérhæfingu á starfsstöðvum.

Samhliða úttektinni var í fyrra könnuð ánægja með þjónustu embættanna. Á Austurlandi reyndust 51% svarenda ánægðir eða frekari ánægðir en 24% lýstu óánægju. Hlutfallið var svipað og hjá öðrum embættum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.