„Vissulega hefur þetta rask haft áhrif á skólastarfið“

Haustið 2016 voru fengnir sérfræðingar frá Eflu til að kanna hvort mygla gæti verið í elsta hluta skólahúsnæðis Grunnskóla Fáskrúðsfjarðar, en grunur lék á að í austasta hluta þess húsnæðis, sem að hluta er niðurgrafinn, væri mygla. Sá grunur reyndist réttur og myglusveppur fannst undir dúk í austustu kennslustofunni.

 


„Já, vissulega hefur þetta rask haft áhrif á skólastarfið og reynt mikið á nemendur og starfsfólk skólans. Það hafa hins vegar allir verið ótrúlega lausnamiðaðir og úrræðagóðir“,segir Þóroddur Helgason, fræðslustjóri Fjarðabyggðar.

Tímaáætlanir hafa nokkurn veginn staðist
Hafist var handa við verkið um leið og skóla var lokið í vor. Ákveðið var að taka alla elstu bygginguna í gegn, en gólfið var brotið upp og skipt um allar lagnir. „Segja má að báðar hæðir hússins hafi verið gerðar fokheldar í sumar þar sem húsnæðið var allt endurbætt. En tímaáætlanir hafa nokkurn veginn allar staðist“, segist Þóroddur. Nemendur fengu aðra stofu í nýja húsnæði skólans, dúkurinn var fjarlægður og rýmið allt hreinsað. „Eftir lagfæringar fluttu nemendur og kennarar aftur í stofuna, en fljótlega kom í ljós að þessi aðgerð hafði ekki reynst næg og eftir frekari mælingar hjá Eflu var kennslu hætt í kjallara skólans og hún færð yfir í nýja húsið“.

Enn ekki ljóst hver endanlegur kostnaður verður
Kennsla er nú hafin á annarri hæð skólans í kennslustofum 5. – 10. Bekkjar og í lok október getur kennsla hafist á neðri hæðinni, í stofum 1. – 4. Bekkjar, sem nú er kennt í nýja húsinu, og í sérgreinastofum. „Það er enn ekki ljóst hver endanlegur kostnaður verður. Kostnaðaráætlun var um 70 milljónir vegna fyrri áfanga verksins, en síðan hefur verið samið um einhver aukaverk sem nauðsynlegt hefur verið að fara í“, segir Þóroddur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.