Vísbendingar um meiri hreyfingu eftir mikla rigningu

Vísbendingar eru um aukna hreyfingu í jarðvegsfleka við Búðará á Seyðisfirði eftir miklar rigningar síðustu þrjá daga.

Þetta kemur fram í færslu frá ofanflóðadeild Veðurstofu Íslands. Uppsöfnuð úrkoma á Seyðisfirði síðustu þrjá sólarhringa er 85 mm., sem vissulega er töluvert en þó minna á fjörðunum þar fyrir sunnan.

Mælingar á speglum í jarðvegsflekanum sýna að hreyfing flekans hefur heldust aukist á ný eftir þessa rigningu, þeir sem lengst hafa farið hafa hreyfst rúma 2 sm. undanfarinn sólarhring. Hreyfing þeirra undanfarna viku er tæpir 15 sm.

Mælingar úr bylgjuvíxltæki sýna ósamfellda hreyfingu á svæðinu og GPS mælar ekki marktæka hreyfingu. Vatnsyfirborð er byrjað að hækka í flestum borholum.

Samkvæmt veðurspá er von á einhverri úrkomu fram að helgi en mest í formi snjókomu eða slyddu. Áfram verður fylgst með aðstæðum á Seyðisfirði á náttúruvávakt Veðurstofunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar