Vinnuvernd: Gömlu góðu gildin hennar ömmu eru mest inni í dag

Öryggisstjóri HB Granda segir mikilvægast að vinna með jákvæðni þegar breyta eigi hegðun starfsmanna í átt að öruggari vinnubrögðum. Vafasamt er að umbuna starfsmönnum með peningagreiðslum fyrir slysalausar stundir.


„Til að breyta hegðun þarf að brjóta upp vana eða koma upp nýjum. Það er oft ótrúlega erfitt en auðveldara ef fólk er meðvitað um það,“ sagði Snæfríður Einarsdóttir, öryggisstjóri HB Granda.

Snæfríður er uppalinn Vopnfirðingur og menntaður vélfræðingur sem síðar bætti við sig námi í sálfræði og meistaragráðu í stjórnun og stefnumótun áður en hún tók við starfi öryggisstjórans fyrir um ári. „Það eru gömlu góðu gildin hennar ömmu sem eru mest inni. Við erum alltaf að vinna með fólki og það þarf að nálgast af umburðarlyndi.“

Hún sagði mikilvægt að hafa skilaboðin einföld og verðlauna fremur en refsa. „Það er mikilvægt að ná til viðkomandi strax um leið og hegðun á sér stað. Ef hrósið kemur seint getur verið óljóst fyrir hvað það er.“

Snæfríður varaði við að verðlauna með peningum. „Það er yfirleitt ekki nógu skýr tenging milli þess sem kemur í lok mánaðar og þess sem gert var. Til lengri tíma skiptir bónusinn ekki máli, það er helst að menn taki eftir honum ef hann er tekinn af.“

Hún varaði einnig við að vera til dæmis með klukku á áberandi stað sem telji slysalausar vinnustundir. „Það má ekki vera hægt að svindla á kerfinu, til dæmis að pína sig í vinnuna með gifsið. Það má ekki vera til staðar eitthvað sem hægt er að fella algjörlega með einum mistökum.“

Hún sagði erfitt að finna hvernig eigi að verðlauna starfsmenn. Það fari bæði eftir einstaklingum, starfsmannahópnum og menningunni á vinnustaðnum.

Snæfríður var spurð hvort hún upplifði erfiðleika við að fá umræðu um öryggismál þar sem menn væru vanafestir og hefðu mögulega starfað lengi eins og í sjávarútvegi. Því hafnaði hún.

„Ég finn ekki fyrir þessari íhaldssemi að menn hafi gert hlutina eins í 30 ár og aldrei neitt komið upp á. Ég finn jákvæðni þegar ég fer um borð í skipin. Sjómenn eru virkilega áhugasamir um öryggismálin og vilja hafa þau í lagi því þau skipta þá miklu máli.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.