Vill nýta eldmóðinn í verkefnið

„Nú þarf bara að nýta eldmóðinn sem skapaðist í gær og ég vona að bæjarbúar taki þátt í verkefinu, ég nenni ekki að sitja uppi með 30 metra af efni og sauma allt sjálf,“ segir Oddý Björk Daníelsdóttir, en mikill áhugi er fyrir því að gera Seyðisfjörð að plastpokalausu samfélagi.

Anna Guðbjörg Sigmarsdóttir setti stöðufærslu á Facebooksíðu sína í fyrradag þess efnis að nú væri kominn tími til að fara að fyrirmynd annarra sveitarfélaga og losa bæinn við sem mest af óþarfa plastpokanotkun.

„Ég á alls ekki heiðurinn að þessu, heldur bara greip færslu Önnu Guðbjargar á lofti og langar að við hjálpumst að við að koma henni í framkvæmd,“ segir Oddný Björk.

Oddný Björk auglýsti strax eftir efnivið í pokana og viðbrögðin létu ekki á sér standa. „Ég er að fá bilaðslega mikið af efnum, svo mikið að ég er pínu skelkuð,“ segir hún hlægjandi. „Nú er bara næsta skref að auglýsa eftir fólki sem er tilbúið til að rífa fram saumavélarnar og sauma poka. Því næst þarf að fá vilyrði í búðunum að fá að setja upp kassa með pokunum, en við erum nú þegar komin með leyfi til þess í kjörbúðinni.“

Fjölnotapokarnir gleymast heima
Oddný Björk segist þess viss að allir vilji í rauninni hætta að nota plastpoka. „Aðal vandamálið með fjölnotapokana er að margir eiga þá en gleyma þeim heima og þarf þess vegna að kaupa poka. Þess vegna er svo mikilvægt að fara í samstarf með búðunum að láta þá liggja þar frammi og getur svo skilað þeim þegar bunkinn heima stækkar.“

Forðaðist allt plast í viku
Sjálf segist Oddný Björk ekki hafa keypt plastpoka að staðaldri í átta ár. „Ég hata plast og gerði tilraun í vetur þar sem ég keypti engar vörur sem innihéldu plast, nema þá nauðsynjar eins og klósettpappír, bleyjur eða dömubindi. Það var bara ógeðslega erfitt og matseðilinn var afar undarlegur þessa viku, en ég gat ekki keypt neitt kjöt eða þá fisk og sáralítið grænmeti.“

Áhugamannahópurinn hefur fengið athvarf í Herðubreið og þeir sem vilja taka þátt er bent á að hafa samband gegnum síðuna Pokasaumur á Seyðisfirði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.